Hátt í þúsund íbúðir í nýju hverfi á Akureyri

Akureyrarbær hefur kynnt drög að deiliskipulagi fyrir nýtt íbúðasvæði vestan Borgarbrautar, fyrir ofan Síðuhverfi í framhaldi af Giljahverfi. Markmiðið er að leggja grunn að hverfi með fjölbreyttum íbúðagerðum og grænum svæðum sem verður aðlaðandi búsetukostur.  Reiknað er með 970 íbúðum og 1900-2300 íbúum.

Í stuttu máli:

  • Allt að 970 íbúðir á svæðinu og má því ætla að íbúafjöldi verði á bilinu 1.900-2.300.
  • Gert er ráð fyrir að íbúðir í fjölbýli verði um 77-80% samanborið við 20-23% í sérbýli sem þýðir að álíka mikið landsvæði fer undir fjölbýli og sérbýli.
  • Stefnt er að því að hefja uppbyggingu úr suðri vegna nálægðar við Síðuskóla þar sem svigrúm er til að fjölga nemendum.

Grænt og vistvænt hverfi

Samkvæmt tillögu að deiliskipulagi er gert ráð fyrir að safngata liggi í gegnum íbúðasvæðið en húsagötur verði í flestum tilvikum botngötur til að hægja á umferð. Lagt er til þétt net göngu- og hjólastíga um hverfið og að meginleiðir verði ekki meðfram safngötu til að skapa næði frá bílaumferð. Mikil áhersla er lögð á gott aðgengi að grænum svæðum og er gert ráð fyrir torgsvæði, leiksvæðum, sleðabrekku og matjurtagarði.

Sjálfbær þróun er lykilatriði samkvæmt tillögunni og birtist meðal annars í blágrænum ofanvatnslausnum sem stefnt er að því að nota í hverfinu. Við enda botngata er gert ráð fyrir snjósöfnunarsvæðum sem tengjast ofanvatnslausnum svo ekki þurfi að aka snjó burt eftir mokstur. Þá er lagt til að kvöð verði sett á lóðir fjölbýlishúsa um trjágróður.

Ítarlegri umfjöllun má finna á vef Akureyrarbæjar.

Heimild: akureyri.is