Hlutfall háskólamenntaðara á atvinnuleysisskrá hefur aldrei verið hærra en nú á Akureyri. Vinnumálastofnun Norðurlands eystra undirbýr átak til að koma þessum hópi út í atvinnulífið.

113 manns með háskólamenntun eru nú atvinnulausir á Akureyri. Að sögn Sigríðar Ástu Hauksdóttur, náms- og starfsráðgjafa hjá Vinnumálastofnun Norðurlands eystra, er hlutfallið óvenju hátt.

„Sem fyrr eru grunnskólamenntaðir stærsti hópurinn, rúmlega 50% en í hópi háskólamenntaðra sem er ívið meira en á landsvísu og það er eitthvað sem við höfum verið að beina sjónunum að,“ segir Sigríður Ásta.

Að hennar sögn er nú í undirbúningi átak til atvinnusköpunar fyrir háskólamenntað fólk sem unnið verður í samvinnu við atvinnurekendur á Akureyri.

„Eftir að hafa eytt bæði tíma og fjármunum í að mennta sig þarfnast þessi hópur fyrst og fremst að fá tækifæri til afla sér reynslu á vinnumarkaði, þannig að það átak sem við sjáum fyrir okkur mun fyrst og fremst hafa það að markmiði að koma þessu fólki út í atvinnulífið með einum eða öðrum hætti og búa til þessa brú.“

Heimild: Ruv.is