Hátíðarhöld á Siglufirði í minningu sr. Bjarna Þorsteinssonar

Siglfirðingar fagna því um helgina að í dag eru 150 ár liðin frá því einn af bæjarins helstu sonum fæddist. Séra Bjarni Þorsteinsson, prestur, tónskáld og þjóðlagasafnari.

Bjarni var sóknarprestur á Siglufirði í tæplega hálfa öld frá árinu 1888. Hann var ekki aðeins andlegur leiðtogi Siglfirðinga heldur einnig veraldlegur en hann hefur af mörgum verið kallaður höfundur Siglufjarðar en hann skipulagði þar hverfi og teiknaði upp götur. Þekktastur er Bjarni fyrir söfnun íslenskra þjóðlaga en safn hans þykir mikill fjársjóður enn þann dag í dag. Hann var einnig landsþekkt tónskáld og textahöfundur. Eftir hann liggja lög á borð við „Sveitin mín“, „Íslandsvísur“ og „Kirkjuhvoll“ og hann samdi einnig textann við eitt af þekktari dægurlögum síðustu aldar „Það liggur svo makalaust“ sem er sungið á góðri stundu af Siglfirðingum nútímans.

Í tilefni af afmæli Bjarna Þorsteinssonar var í dag reistur turn við Hvanneyrarkirkjugarð en hann er til minningar um kirkjurnar sem þar stóðu og prestana sem þar þjónuðu. Hátíðahöld verða á Siglufirði fram á sunnudag í minningu séra Bjarna, meðal annars málþing um líf hans og störf og þá eru tónleikar helgaðir Bjarna í Grafarvogskirkju í kvöld.

Rúv.is greinir frá.