Hátíðardagskrá í Dalvíkurkirkju 15.október

Kammerkór Norðurlands er á leið til Sviss 19. október nk., en kórnum hlotnaðist sá heiður að vera boðið að halda hátíðartónleika á íslenskum bókmenntadögum í Zofingen í Sviss, sem haldnir verða dagana 21.-23. október. Þessi uppákoma er framhald af stóru bókamessunni í Frankfurt, þar sem íslenskar bókmenntir verða í brennidepli þetta árið. Efnisskráin verður þversnið af prógrammi síðustu ára auk þriggja nýrra laga við bráðskemmtileg kvæði Þórarins Eldjárns, sem útbúin voru fyrir þetta tækifæri.

Músíkunnendum gefst einstakt tækifæri til að hlýða á þetta sérvalda hátíðarprógramm í Dalvíkurkirkju laugardaginn 15. október kl. 16. Heyrið draugaganginn og hyldjúpa forneskjuna í Barnagælum Halldórs Laxness og Jóns Ásgeirssonar, Maríulofgjörð Báru Grímsdóttur, heimspekilega þanka Þórarins Eldjárns um karl sem kann að kaupa spagettí, ærandi tregann í Söknuði Jónasar Hallgrímssonar, Garðshornsbónda rugga dóttur sinni við lag Guðmundar Óla og dæmalaust bullið í Æra-Tobba – allt á sömu tónleikunum.
Aðeins þessir einu tónleikar!

Stjórnandi er, sem endranær, Guðmundur Óli Gunnarsson, hestamaður á Bakka.
Miðaverð 2000 kr., ekki tekið við greiðslukortum.

Texti frá  Dalvík.is