Háskólinn á Hólum fram úr fjárheimildum

Ríkisendurskoðun vinnur nú að skýrslu um fjármál Háskólans að Hólum, en skólinn hefur farið langt fram úr fjárheimildum undanfarin ár. Rektor skólans segir hann eins vel rekinn og aðstæður í þjóðfélaginu bjóði upp á.

Háskólinn á Hólum í Hjaltadal, oft kallaður Hólaskóli, býður upp á nám í ferðamálafræði, hestafræði og fiskeldis- og fiskalíffræði. Þar eru nú um 270 nemendur við nám. Rekstur skólans hefur gengið brösuglega undanfarin ár og hefur hann farið langt fram úr heimildum. Árið 2008 fór skólinn 69 milljónir króna fram úr heimildum, eða tæp 22%. Árið 2009 nam framúrkeyrslan 72 milljónum, eða 35% og í fyrra fór skólinn 81 milljón fram úr heimildum, eða tæpum 42%.

Árið 2009 fékk Hólaskóli lán frá ríkissjóði upp á um 100 milljónir króna til að greiða niður útistandandi skuldir til birgja. Í ríkisreikningi kemur hins vegar fram að skuld skólans við ríkissjóð nam um 177 milljónum króna í árslok 2010.

Samkvæmt upplýsingum úr menntamálaráðuneytinu standa nú yfir viðræður við fjármálaráðuneytið um hvernig skuli taka á málefnum Hólaskóla. Þá fékkst það staðfest hjá ráðuneytinu að Ríkisendurskoðun vinnur nú að skýrslu um fjármál skólans.

Rúv.is greinir frá.