Alls eru 1.022 nýnemar nám við Háskólann á Akureyri sem er 114 nemendum fleira en árið áður. Langflestir, eða 322, hefja nám í félagsvísinda- og lagadeild en til hennar telst m.a. nám í fjölmiðlafræði, félagsvísindum, sálfræði og lögreglufræði. Þetta er í annað skipti sem Háskólinn á Akureyri tekur við nemendum í lögreglufræði eftir að mennta- og menningarmálaráðuneytið fól skólanum að hýsa námið í fyrra. Samtals hefja 157 nám í lögreglufræði á haustmisseri.
„Það er afar ánægjulegt að sjá að gæði og orðspor Háskólans á Akureyri eru að skila okkur fleiri nemendum. Þetta er þriðja árið í röð sem við fáum metaðsókn og því ljóst að námið hjá okkur er eftirsóknarvert. Það veldur mér þó áhyggjum að við munum ekki geta tekið við sama fjölda nýnema á næstu árum. Eins og staðan er í dag er Háskólinn á Akureyri fullsetinn og ljóst að grípa þarf til aðgangstakmarkana strax á næsta ári,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.
Engar aðgangstakmarkanir eru á fyrsta árinu en aðeins 55 nemar komast áfram í hjúkrunarfræði af þeim 156 sem hefja námið á þessu haustmisseri. Því er eins háttað með lögreglufræði: Af þeim 157 sem hefja námið eru aðeins 40 sem komast að í tveggja ára starfsnám fyrir lögreglumenn en einnig er hægt að halda áfram og ljúka þriggja ára bakkalárnámi í greininni.
Kynjahlutfall nýnema er svipað og árið áður og nú hefja 36% karlar nám á meðan hlutur kvenna er 64%. Í Háskólanum á Akureyri er boðið uppá 13 námsleiðir í grunnnámi, þar af eru 7 námsleiðir sem enginn annar háskóli á Íslandi býður upp á.
Háskólinn á Akureyri fagnaði 30 ára afmæli um síðastliðna helgi. Skólinn hóf starfsemi 5. september 1987 með kennslu á tveimur námsbrautum, hjúkrunarfræði og iðnrekstrarfræði. Skráðir nemendur hafa aldrei verið fleiri en á þessu haustmisseri eða tæplega 2.100.
Heimild: unak.is