Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar lék í dag gegn Hamar í íþróttahúsinu á Siglufirði.  Búist var við jöfnum leik en í síðustu fjórum viðureignum liðanna hefur BF unnið tvisvar og Hamar tvisvar.

BF hefur fengið nýjan þjálfara fyrir þetta tímabil, Gonzalo Garcia Rodriguez, sem kom frá Spáni og hefur talsverða reynslu af þjálfun. Hann er fæddur árið 1977 og getur spilað með liðinu ef á þarf að halda, en mun líklega halda sig á hliðarlínunni í vetur.  BF liðið er svipað og í fyrra, byggt á eldri og yngri leikmönnum, en fleiri yngri liðsmenn hafa nú bæst í hópinn. Liðið hóf æfingar í byrjun september og hefur nýi þjálfarinn byrjað með mikinn hraða á æfingum til að koma liðinu í sem best form.

Lið Hamars er talsvert eldra en BF, byggt á leikmönnum á milli fertugs og fimmtugs og aðeins tveir ungir leikmenn í liðinu sem eru 20 og 22 ára. Lið Hamars hefur Jón Ólafs Valdimarsson í uppspilinu en hann er mjög reyndur leikmaður sem hefur leikið í efstu deild blaksins á Íslandi í mörg ár og einnig dæmt fjölmarga leiki á Íslandi.

Hamar byrjaði fyrstu hrinuna aðeins betur og komust í 2-4 en BF jafnaði 5-5. Aftur var jafnt 8-8, 10-10 og 15-15 en þá kom góður kafli hjá Hamar og skoruðu þeir 7 stig á móti 1 og tóku heimamenn leikhlé í þessum kafla. Í stöðunni 16-22 tók BF aftur leikhlé. Hamar skreið framúr og komst í 17-24 en BF gerði þá þrjú stig í röð og minnkaði muninn í 20-24. Hamar átti síðasta stígið og unnu hrinuna 20-25.

Önnur hrina byrjaði svipað og sú fyrri, liðin voru jöfn í upphafi en Hamar var að ná 2ja-3ja stiga forskoti og leiddu alla hrinuna. Í stöðunni 15-17 tók BF leikhlé en þeir höfðu átt ágætis kafla á undan. Hamar kom hinsvegar sterkari út eftir hléið og komust í 15-19 og 16-22.  Hamar vann hrinuna nokkuð örugglega 18-25 en BF náði ekki vinna upp forskotið sem gestirnir höfðu alla hrinuna.

Í þriðju hrinu komu heimamenn aðeins ákveðnari til leiks og komust í 4-2 og 6-4 áður en Hamar jafnaði í 8-8. Aftur var jafnt 10-10 en nú kom góður kafli hjá Hamar sem skoruðu 5 stig í röð og breyttu stöðunni í 10-15 og tóku nú heimamenn leikhlé. Hamar var áfram sterkari eftir hlé og komust í 12-18 og 14-22 með góðu spili og þéttum leik. BF náði ekki að komast inn í leikinn aftur og vann Hamar þriðju hrinuna 17-25.

Ólafur Björnsson hjá BF átti ágæta spretti í leiknum, ógnaði kantinum og var öflugur í hávörn. Liðið er greinilega enn að spila sig saman og stutt síðan æfingar hófust og leikformið ekki alveg það besta.

Jón Óli hjá Hamar skilað vel sínu í þessum leik með góðu uppspili og lágvörn. Sanngjarn 0-3 sigur hjá Hamar í þessum leik.

Kvennalið BF lék einnig í dag gegn Álftanesi, og verður nánar greint frá þeim leik síðar.