Hálsganga Skíðafélags Ólafsfjarðar

Fimmtudaginn 29. mars ætlar Skíðafélag Ólafsfjarðar að troða skíðagöngubraut frá golfvelli Golfklúbbs Fjallabyggðar inn Skeggjabrekkudal og upp á Háls. Leiðin er þekkt gönguleið og skilur Háls á milli Skeggjabrekkudals og Héðinsfjarðar. Frá Skeggjabrekkuvelli upp á Háls eru um 8,5 km. Dalurinn er nokkuð á fótinn þegar komið er inn fyrir sléttuna innan Hóla, en reynt verður að skera hlíðina á troðaranum upp mesta brattann. Hér gefst einstakt tækifæri til að njóta útivistar í frábæru umhverfi. Háls er í u.þ.b. 680 metra hæð og útsýni því mikið. Gert er ráð fyrir að brautin verði tilbúin kl. 11:00-12:00.
Engin gæsla verður í brautinni og fara göngumenn á eigin ábyrgð.  Skíðafélag Ólafsfjarðar veitir nánari upplýsingar um viðburðinn.