Halldór markmaður KF leggur hanskana á hilluna

Tengdafaðir Halldórs Ingvars Guðmundssonar markmanns KF varpaði sprengju á fésbókinni í gær þegar hann tilkynnti að tengdasonur sinn hefði ákveðið að láta hanskana á hilluna eftir þetta tímabil með Knattpspyrnufélagi Fjallabyggðar. Tengdafaðirinn góði og fyrrum bæjarstjóri Siglufjarðarkaupsstaðar var því fyrstur með fréttina. Dóri mun því líklega leika sinn síðasta heimaleik núna um helgina gegn ÍR á Ólafsfjarðarvelli. Stuðningsmenn KF og vinir Dóra eru hvattir til að mæta á völlinn og styðja sína menn.

Dóri meiddist í lok síðasta tímabils og hefur einnig átt við meiðsli á þessu tímabili.  Dóri er fæddur árið 1992 og því er alltaf möguleiki á að hann hætti við að hætta og verði með endurkomu síðar.

Dóri er einn af uppöldu leikmönnum KF og lék upp yngri flokkana með KS og KS/Leiftri. Hann lék svo sinn fyrsta meistaraflokks leik með KS/Leiftri árið 2007, þá aðeins 15 ára gamall. Tveimur árum síðar var hann búinn að eigna sér stöðuna og lék 21 leik það sumarið fyrir meistaraflokk. Dóri hefur núna leikið 220 leiki í deild- og bikarleikjum með KF, KS og KS/Leiftri auk 105 leikja í deildarbikar, Norðurlandsmótinu og annara æfingamóta. Þá var Dóri þjálfari liðsins í þrjá leiki árið 2016. Dóri hefur starfar sem íþróttakennari við Grunnskóla Fjallabyggðar og stundað nám við Háskólann á Akureyri undanfarin ár.

Líklegt þykir að Javon Jerrod Sample taki við markmannsstöðunni hjá KF, en hann kom til liðsins í vor og hefur leikið 5 leiki fyrir félagið í sumar. Þá er Helgi Már Kjartansson, ungur varamarkmaður liðsins til taks en hann hefur leikið 1 bikarleik á þessu tímabili.

Dóri hefur verið í viðtali hér á vefnum í tvö skipti, árið 2020 og 2017.

Takk Dóri!

Viðtal – Halldór Ingvar Guðmundsson hjá KF

Halldór Ingvar Guðmundsson KF – 2017