Hættir eftir 52 ára starf í Grenivíkurskóla

Grenivíkurskóla var slitið með formlegum hætti mánudaginn 4. júní síðastliðinn.  Þrír nemendur voru útskrifaðir úr 10.bekk.  Skólastjóri Grenivíkurskóla fór yfir skólastarfið í vetur og þakkaði starfsfólki, nemendum og foreldrum fyrir veturinn.  Þá minnti hún á mikilvægi lesturs og hvatti nemendur til að vera duglegir að lesa í sumar.

Sigríður Sverrisdóttir hættir störfum við skólann í vor, en nú eru 52 ár síðan hún hóf kennslu við Barnaskólann á Grenivík, þá aðeins 18 ára gömul.  Fyrstu nemendur Siggu voru 25 talsins.  Margir þeirra mættu á skólaslitin til að fagna þessum tímamótum með kennaranum sínum.  Sigríður er búin að kenna þremur kynslóðum í sumum tilfellum.   Störf hennar í þágu íbúa sveitarfélagsins eru mikil og góð, hún hefur stutt bæði við nemendur og foreldra, sinnt íslenskukennslu fyrir útlendinga, verið frumkvöðull Grænfánaverkefnisins í sveitarfélaginu og hjálpað mörgum nýjum kennurum að fóta sig í starfi.

Heimild: grenivik.is