Engin starfsemi var í dag í Kvosinni á Hofsósi þótt hættuástandi vegna snjóflóða, sem skapaðist þar í gær, hafi verið aflýst. Valgeir Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Vesturfarasetursins, treystir ekki snjónum og vill bíða átekta.

Ytri hluta Kvosarinnar á Hofsósi var lokað um miðjan dag í gær en óttast var að mikill snjór, sem safnast hafði í hengjur ofan við hús Vesturfarasetursins og Íslensku fánasaumastofunnar gæti fallið á húsin. Eftir frekari skoðun í morgun var hættuástandinu aflétt og svæðið opnað að nýju.

Framkvæmdastjóri Vesturfarasetursins gat því opnað dyr þess að nýju um hádegisbilið. Hann boðaði starfsfólkið þó ekki til vinnu, frekar en í fánasaumastofunni sem hann rekur líka.

Það er gríðarlegur snjór sem hefur safnast fyrir uppi á brúninni og lagst af miklum þunga á húsin. Ljóst er að það þarf að hreinsa þennan snjó í burtu.

Vesturfarasetrið á Hofsósi

Ljósmynd: Magnús Rúnar Magnússon/Héðinsfjörður.is.

 

Heimild: ruv.is