Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skrifaði í vikunni undir samning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Stjórnstöð ferðamála um verkefnið Hæfnisetur ferðaþjónustunnar en það er samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvalda um heildstæðar lausnir og úrbætur til að auka hæfni í ferðaþjónustu á Íslandi.
Í Vegvísi í ferðaþjónustu sem gefinn var út í október 2015 er lögð áhersla á sjö þætti til að byggja traustan grunn fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi og er aukning á hæfni einn sá mikilvægasti til að auka gæði, jákvæða upplifun ferðamanna og verðmætasköpun í greininni.
Í Hæfnisetrinu verður áhersla lögð á að þróa námslotur fyrir starfsmenn í ferðaþjónustu, leiðtogafræðslu, þrepaskipt starfsnám og raunfærnimat í starfsgreinum ferðaþjónustunnar. Byggt verður m.a. á reynslu frá Skotlandi og Kanada en þar hafa verið þróaðar lausnir til að auka gæði, framleiðni og arðsemi í ferðaþjónustu á grundvelli hæfni stjórnenda og starfsmanna.