Gunnar áfram bæjarstjóri -áhersla lögð á grunnþjónustu og atvinnulíf – Gervigrasvöllur í Ólafsfirði

Í málefnasamningi Sjálfstæðisflokks og Betri Fjallabyggðar sem opinberaður var síðdegis í dag kemur fram að Gunnar Birgisson verður áfram bæjarstjóri. Lögð verður áhersla á að treysta innviði sveitarfélagsins,  efla grunnþjónustu, atvinnulíf,  frístundir og menningu. Framboðin eru sammála um að halda áfram þeirri vegferð sem lögð hefur verið upp með á síðasta kjörtímabili varðandi framkvæmdir og stefnumótun. Fulltrúi X-D verður formaður bæjarráðs og fulltrúi X-I verður forseti bæjarstjórnar.

Fasteignaskattur verður lækkaður um 10% að lágmarki. Systkinaafsláttur verður aukinn, frístundastyrkur hækkar úr 30 þús. í 40 þús.  Niðurgreiðsla skólamáltíða verður aukin um 10%. Frítt verður í sund og líkamsrækt fyrir eldri borgara og öryrkja. Almenningssamgöngur verða efldar á milli byggðarkjarna.

Byggður verður gervigrasvöllur í Ólafsfirði með lýsingu og bættri aðstöðu fyrir áhorfendur. Stefnt er að því að völlurinn verði tekinn í notkun árið 2020.

Nánar verður fjallað um ákveðin mál hér á vefnum á næstu dögum.