Nemendur allra bekkja Grunnskóla Fjallabyggðar tóku þátt í átakinu Göngum í skólann í septembermánuði. Átakinu er ætlað að hvetja nemendur til að nota virkan ferðamáta til og frá skóla. Kennarar skólans héldu skráningu hjá nemendum og síðan var reiknað út hvaða bekkir höfðu staðið sig best.

Allir bekkir skólans stóðu sig mjög vel og gengu eða hjóluðu í og úr skóla yfir 90% ferða sinna. Við grunnskólann í Ólafsfirði var það 8. bekkur sem hlaut gullskóinn (98,2%) og 6. bekkur sem hlaut silfurskóinn (96,7%). Við grunnskólann á Siglufirði var það síðan 5. bekkur sem hlaut gullskóinn eftir harða keppni milli bekkjanna.

Myndir: Grunnskóli Fjallabyggðar