Í haust fóru átta starfsmenn úr Grunnskóla Fjallabyggðar í skólaheimsókn til Grönna í Svíþjóð. Það var liður í Nordplus samstarfsverkefni, sem hófst síðastliðið skólaár en þá kom hópur skólafólks til Fjallabyggðar frá Ribbaskolan í Grönna í Svíþjóð og Kuuhankaveden í Hankasalmi í Finnlandi.

Tilgangur verkefnisins er að fylgjast með og greina hvernig kennarar í þessum löndum vinna við lestrarþjálfun á mismunandi aldursstigum og eiga samræður um hvernig auka megi lestur, lesskilning og ritfærni meðal nemenda.

Kennarar Grunnskóla Fjallabygðar fengu að fylgjast með kennslunni á öllum stigum í Ribbaskolan og einnig heimsóttum við lítinn skóla, sem er í Visingsö, það er lítil eyja rétt hjá Grönna, einungis 25 mínútna sigling með ferju sem gengur á milli eins og strætó.

Námsgögnin í Svíþjóð vöktu einnig athygli. Þar var unnið út frá sama texta en mismunandi þyngdarstig, sem hentaði öllum nemendum. Þá er mikil áhersla lögð á hljóðbækur og rafbækur og fá nemendur frían aðgang inn á þær.

Hver nemandi hefur sinn iPad til afnota en fær ekki að fara heim með hann fyrr en í 4. bekk. Kennslustundir voru langar en brotnar upp með hreyfingu í skólastofunni, nemendur réðu hvort þeir tóku þátt í þeirri hreyfingu eða tóku pásu við borð sitt. Það var margt sem kennarar Grunnskóla Fjallabyggðar sáu sem þeir vilja taka upp í Fjallabyggð og blanda inn í kennsluaðferðir.

Nú í febrúar tekur svo finnski skólinn í Hankasalmi á móti hópi frá Grunnskóla Fjallabyggðar og sænska hópnum í heimsókn. Eins og góðra gesta er siður þá færðu kennarar Grunnskóla Fjallabyggðar skólanum gjöf en það var ljósmyndabók úr Fjallabyggð. Einnig langaði kennurum Grunnskóla Fjallabyggðar til að færa sænsku og finnsku kennurunum eitthvað fleira úr heimabyggð en fyrirtækið Primex á Siglufirði var svo rausnarlegt að gefa ChitoCare Beautyvörur til þess að færa þeim.

Þetta kemur fram á heimasíðu Grunnskóla Fjallabyggðar.