Fyrri undankeppni Fiðrings, hæfileikakeppni grunnskólanna á Norðurlandi, var haldin í Tjarnarborg í byrjun vikunnar og átti Grunnskóli Fjallabyggðar 14 fulltrúa úr 8. – 10. bekk.  Auk Grunnskóla Fjallabyggðar kepptu nemendur frá Hríseyjarskóla, Glerárskóla, Giljaskóla, Naustaskóla og Brekkuskóla. Þrjú atriði voru valin áfram til að taka þátt í úrslitakvöldinu sem fer fram í Hofi á Akureyri þann 25. apríl næstkomandi.

Það voru nemendur úr Grunnskóla Fjallabyggðar sem komust áfram úr fyrri undankeppninni ásamt Glerárskóla og Giljaskóla frá Akureyri. Atriðið Grunnskóla Fjallabyggðar heitir Seinna er of seint og fjallar um áhrif hlýnun jarðar. Frábær árangur hjá þessum skólum.

Seinni undankeppni Fiðrings var haldið 19. apríl sl. og þar kepptu Oddeyrarskóli, Síðuskóli, Lundarskóli, Þelamerkurskóli, Hrafnagilsskóli og Borgarhólsskóli. Þar voru einnig valin þrjú atriði sem taka þátt í úrslitakvöldinu. Dómarar velja síðan tvö atriði í viðbót þannig að átta skólar fara í úrslit.

Nemendur þátttökuskólanna hafa samið sitt eigið atriði og æft af kappi alla vorönnina undir handleiðslu leiðbeinanda þar sem mikil áhersla er lögð á sjálfstæð og lýðræðisleg vinnubrögð. Nemendur sjá alfarið um listræna útfærslu hvað varðar búninga, leikmynd, sviðshreyfingar, ljós og hljóð.