Grímseyjardagurinn 2013 verður haldinn 31. maí til 2. júní.  Boðið er upp á fjölbreytta dagskrá byggða á grímseyskum hefðum og því hráefni sem árstíminn býður upp á. Grímseyingar standa alfarið að hátíðinni og taka vel á móti gestum. Þetta er líka tilvalinn tími til að skoða eyjuna þegar allar syllur og holur eru fullskipaðar af fugli, sólin farin að verma klappir og tún nánast allan sólarhringinn og lífríkið komið úr viðjum vetrar.

Á dagskrá Grímseyjardaga eru meðal annars ratleikir, bjargsig, fjöldasöngur út við nyrsta haf, grill við höfnina, sjávarréttarkvöld og dansleikur í Múla. Allar nánari upplýsingar um einstaka dagskrárliði og tímasetningar má sjá á www.visitakureyri.is