Grenivíkurgleðinni er lokið í áttunda sinn

Grenivíkurgleðin var haldin í áttunda sinn sl. helgi og fór hún vel fram að vanda. Fjölbreytt dagskrá var í boði en áhersla var þó  lögð á smáfólkið.  Björn Ingólfsson setti Grenivíkurgleðina  á föstudagskvöld á tjaldstæðinu í blíðskaparveðri.

Kynnir Grenivíkurgleðinnar í ár var stuðboltinn og Bolvíkingurinn Benni Sig.  Norðlenska, Bautinn og Vífilfell voru með kynningu á mat og drykk. Karlakór Eyjafjarðar söng undir stjórn Petru Pálsdóttur, haldin var söngkeppni fyrir börnin og Hundur í óskilum kætti mannskapinn. Hljómsveitin Vestfirðingar ársins spiluðu fram á nótt á tjaldstæðinu bæði á föstudags- og laugardagskvöld. Að morgni laugardags var sigling með Húna II út með Látraströnd og í kringum Hrísey. Eftir hádegið var fjör á tjaldstæðinu, grillaðar voru pylsur fyrir börnin, boðið var upp á andlitsmálun, hoppukastalar voru opnir og Skralli trúður kíkti í heimsókn.

Seinni partinn var gamaldags skúrball í Útgerðarminjasafninu á Grenivík þar sem stiginn var dans undir fjörlegri harmonikkutónlist.  Um kvöldmatarleytið hófst svo  grillveislan sjálf. Jói G. og Gunni Helga skemmtu gestum, varðeldur var tendraður, flott flugeldasýning o.fl. var í boði. Sögufélag Grýtubakkahrepps var með ljósmyndasýninguna „Hópmyndir”  báða dagana í Grenivíkurskóla. Íbúar voru duglegir að skreyta hýbýli sín með appelsínugulu og eins og undanfarin ár voru veitt verðlaun fyrir best skreytta húsið.

Grenivik.is greinir frá.