Ljósmynd: Magnús Rúnar Magnússon

Upplýsingar um forsögu og ferlið við ættleiðingar.

Eftirfarandi greinargerð byggir á þeim gögnum sem hafa komið
fram hjá ráðuneytinu fyrir 8. desember 2022.

Athugun ráðuneytisins á gögnum frá árum bendir til þess að fyrstu börnin sem ættleidd voru til Íslands frá Sri Lanka hafi komið til landsins í lok september árið 1984. Fram til þess að dómsmálaráðuneytið stöðvaði ættleiðingar frá Sri Lanka til Íslands árið 1986 voru 84 börn ættleidd þaðan.

Á þessum tíma var ekki sérstaklega kveðið á um það í íslenskum lögum hvernig staðið skyldi að ættleiðingum barna erlendis frá. Þá ber einnig að geta þess að umræddar ættleiðingar frá Sri Lanka til Íslands áttu sér stað áður en Ísland gerðist aðili að Haag samningnum frá 29. maí 1993 um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar milli landa. Þá var félagið Íslensk ættleiðing ekki á þessum tíma löggilt til þess að hafa milligöngu um ættleiðingar á börnum frá erlendum ríkjum.

Ættleiðingar á börnum frá Sri Lanka til Íslands á umræddum tíma fóru fram með milligöngu Hollendings að nafni Dammas Hordijk, en þó þannig að þau pör sem vildu ættleiða skráðu sig almennt á biðlista fyrst hjá Íslenskri ættleiðingu. Dammas Hordijk var um tíma forstöðumaður hollensks ættleiðingarfélags að nafni FLASH, en hann hætti þar störfum árið 1984 og aðstoðaði eftir það á eigin vegum m.a. íslensk pör við að ættleiða  börn frá Sri Lanka.

Tengiliður og samstarfsmaður Dammas Hordijk var lögfræðingur að nafni R. Thavanesan sem starfaði í Sri Lanka. Samkvæmt athugun ráðuneytisins á gögnum frá umræddum tíma sá lögfræðingurinn í Sri Lanka m.a. um lagalegu hliðina gagnvart dómstólum í Sri Lanka fyrir hönd væntanlegra kjörforeldra frá Íslandi þegar þau sóttu um leyfi í Sri Lanka til þess að ættleiða barn.

Allar ættleiðingar frá Sri Lanka á umræddum tíma fóru fram fyrir tilstuðlan stjórnvalds á Sri Lanka, þ.e. Probation Office, og svo dómstóla í Sri Lanka, þ.e. Family Court.

 

Ættleiðingar frá Sri Lanka til Íslands – ferlið árið 1984 til 1986

  • Gögn bera með sér að íslensk pör skráðu sig almennt fyrst á biðlista hjá Íslenskri ættleiðingu vegna ættleiðingar á barni frá Sri Lanka.
  • Væntanlegir kjörforeldrar sendu síðan beiðni á Dammas Hordijk þar sem óskað var eftir aðstoð og milligöngu hans vegna ættleiðingar á barni frá Sri Lanka.
  • Dammas Hordijk sendi upplýsingar á væntanlega kjörforeldra um ættleiðingarferlið í Sri Lanka, m.a. hvaða gögn þyrfti að leggja fram og hvernig ferlið í Sri Lanka væri í heild sinni, aðlagað að íslenskum umsækjendum. Dammas Hordijk benti væntanlegum kjörforeldrum á að vera í sambandi við Íslenska ættleiðingu þar sem félagið væri með upplýsingar um það hvar væntanlegir kjörforeldrar væru í röð á biðlista félagsins.
  • Væntanlegir kjörforeldrar sóttu um vilyrði til dómsmálaráðuneytis hér á landi fyrir því að ættleiða barn frá Sri Lanka.
  • Dómsmálaráðuneytið óskaði eftir því að barnaverndarnefnd hér á landi kannaði hæfni væntanlegra kjörforeldra sem fósturforeldra með það fyrir augum að ættleiða barn frá Sri Lanka. Barnaverndarnefnd lagði mat á hæfni umsækjenda og skilaði ráðuneytinu greinargerð þar sem annað hvort var mælt með umsækjendum sem hæfum fósturforeldrum eða ekki.
  • Ef barnaverndarnefnd mælti með umsækjendum sem hæfum fósturforeldrum gaf dómsmálaráðuneytið út bréf stílað á yfirvöld í Sri Lanka sem var vilyrði fyrir því að væntanlegir kjörforeldrar mættu búast við því að fá leyfi til þess að ættleiða barn frá Sri Lanka þegar þau hefðu fengið nauðsynleg gögn þaðan vegna ættleiðingar á tilteknu barni. Þá var því einnig lýst yfir í bréfi ráðuneytisins að viðkomandi barn myndi fá leyfi til þess að koma til Íslands og að íslensk stjórnvöld myndu taka ábyrgð á viðkomandi barni eins og það væri íslenskur ríkisborgari eftir að barnið yfirgæfi Sri Lanka og að barnið myndi fá íslenskan ríkisborgararétt eftir að „formleg ættleiðing“ hefði farið fram á Íslandi. Bréf ráðuneytisins var afhent væntanlegum kjörforeldrum.
  • Væntanlegir kjörforeldrar skrifuðu bréf til viðkomandi stjórnvalds í Sri Lanka, Commissioner of Department of Probation and Child Care Service, þar sem þau óskuðu eftir leyfi stjórnvalda í Sri Lanka til þess að ættleiða barn þaðan, en bréfið fylgdi með öllum gögnum málsins þegar þau voru send til stjórnvalda í Sri Lanka. Í bréfinu kom fram að lögfræðingur í Sri Lanka myndi annast alla lagalega vinnu og formsatriði vegna ættleiðingarinnar í Sri Lanka fyrir hönd umsækjenda. Einnig kom fram í bréfinu að umsókn og öll fylgigögn yrðu send í gegnum sendiráð Sri Lanka í London þegar búið væri að fara yfir umsóknina þar og samþykkja.
  • Þegar öll gögn voru tilbúin sendu væntanlegir kjörforeldrar afrit af öllum gögnum til Dammas Hordijk til þess að yfirfara þau áður en þau voru send til Sri Lanka. Greiðsla var innt af hendi beint frá væntanlegum kjörforeldrum til Dammas Hordijk. Væntanlegum kjörforeldrum var leiðbeint um að útbúa 4 eintök af öllum gögnum. Eitt færi til sendiráðs Sri Lanka í London, eitt færi til lögfræðings í Sri Lanka við komu umsækjenda þangað, eitt færi til stjórnvaldsins í Sri Lanka (Commissioner of Department of Probation and Child Care Service) þegar viðtal við umsækjendur þar færi fram og eitt skyldi varðveitt hjá umsækjendum sjálfum til öryggis.
  • Þegar Dammas Hordijk hafði yfirfarið gögnin fóru væntanlegir kjörforeldrar með öll gögnin í utanríkisráðuneytið á Íslandi. Gögnin voru stimpluð þar áður en utanríkisráðuneytið sendi gögnin til íslenska sendiráðsins í London. Þá sendi íslenska sendiráðið í London öll gögnin til sendiráðs Sri Lanka í London. Sendiráð Sri Lanka í London yfirfór gögnin og sendi þau til stjórnvaldsins í Sri Lanka (Commissioner of Department of Probation and Child Care Service). Umsækjendur fengu staðfestingu frá sendiráði Sri Lanka í London um að umsókn þeirra hefði verið send til stjórnvalda í Sri Lanka.
  • Samkvæmt upplýsingum frá Dammas Hordijk til væntanlegra kjörforeldra sá lögfræðingurinn í Sri Lanka um pörun væntanlegra kjörforeldra og barns áður en væntanlegir kjörforeldrar komu til Sri Lanka, en þó þannig að væntanlegir kjörforeldrar fengu ekki nákvæmar upplýsingar um viðkomandi barn fyrir brottför þeirra til Sri Lanka aðrar en upplýsingar um kyn barns og aldursbil. Væntanlegir kjörforeldrar fengu t.a.m. ekki mynd af viðkomandi barni eða aðrar ítarlegri upplýsingar fyrir brottför.
  • Þegar upplýsingar um pörun lá fyrir hófu væntanlegir kjörforeldar undirbúning á því að fara til Sri Lanka, m.a. að sækja um vegabréfsáritun. Gert var ráð fyrir að væntanlegir kjörforeldrar þyrftu að vera í u.þ.b. mánuð í Sri Lanka. Gögn bera með sér að Dammas Hordijk hafi aðstoðað kjörforeldra við að skipuleggja ferðina og panta flug fyrir væntanlega kjörforeldra.
  • Dammas Hordijk leiðbeindi væntanlegum kjörforeldrum um að tilkynna til stjórnvaldsins í Sri Lanka um þá dagsetningu sem þau kæmu þangað. Þá yrði skipulagður fundur með væntanlegum kjörforeldrum og stjórnvaldinu á Sri Lanka á skrifstofu stjórnvaldsins. Einnig leiðbeindi Dammas Hordijk væntanlegum kjörforeldrum um að þegar þau kæmu til Sri Lanka yrði fundur með lögfræðingnum í Sri Lanka þar sem væntanlegir kjörforeldrar áttu að skrifa undir gögn vegna umsóknar þeirra um ættleiðingu. Voru þau upplýst um að viðbúið væri að kynmóðir barnsins yrði einnig á þeim fundi. Nokkrum dögum síðar yrði svo fundur hjá stjórnvaldinu í Sri Lanka þar sem væntanlegir kjörforeldrar máttu búast við því að skila inn öllum gögnum til stjórnvaldsins.
  • Þegar viðtal við væntanlega kjörforeldra hafði farið fram hjá stjórnvaldinu í Sri Lanka var útgefið bréf af hálfu stjórnvaldsins þar sem væntanlegum kjörforeldrum var veitt heimild til þess að hitta það barn sem til stóð að þau myndu fá að ættleiða.
  • Væntanlegir kjörforeldrar fóru á annan fund með stjórnvaldinu í Sri Lanka (mögulega einnig barnaverndaryfirvöldum) þar sem þau fengu að sjá viðkomandi barn ásamt kynmóður/kynforeldrum og/eða fulltrúa frá barnaheimili ef svo háttaði til.
  • Málið fór næst fyrir viðkomandi dómstól í Sri Lanka (Family Court). Lögfræðingurinn í Sri Lanka kom fram fyrir hönd væntanlegra kjörforeldra en þau þurftu að vera viðstödd meðferð ættleiðingarmálsins fyrir dómstólnum. Af gögnum má ráða að kynforeldrar, væntanlegir kjörforeldrar og fulltrúar stjórnvaldsins (Probation Office) voru yfirheyrð af dómara við meðferð málsins hjá dómstólum í Sri Lanka. Fyrirliggjandi gögn fyrir dómstólnum áttu þá m.a. að vera samþykki kynforeldra í Sri Lanka fyrir ættleiðingu barnsins en kynforeldrar áttu einnig að mæta fyrir dóminn.
  • Eftir yfirheyrslu á kynforeldrum, væntanlegum kjörforeldrum og fulltrúa stjórnvaldsins fyrir dómstólum ásamt yfirferð á fyrirliggjandi gögnum var tekin ákvörðun af dómstólnum í Sri Lanka hvort veita ætti leyfi fyrir ættleiðingu. Ef fallist var á að veita leyfi fyrir ættleiðingu gaf dómstóllinn út leyfi eða ákvörðun um ættleiðingu samkvæmt lögum í Sri Lanka (e. Adoption Order). Í ákvörðun dómsins kom m.a. fram að viðkomandi barn væri ættleitt af viðkomandi kjörforeldrum samkvæmt lögum í Sri Lanka og að barnið skyldi framvegis skráð í opinberum skrám í Sri Lanka sem „ættleitt“. Þá skyldi gefið út vottorð um ættleiðinguna af viðkomandi skráningaryfirvöldum í Sri Lanka. Ættleiðingin fór því fram í Sri Lanka samkvæmt ákvörðun dómstóla þar í landi. Kjörforeldrar fengu barnið strax í hendur þegar ákvörðun dómsins lá fyrir.
  • Kjörforeldrar fengu afhent ættleiðingargögn vegna barnsins og sóttu um vegabréf fyrir það hjá viðkomandi stjórnvaldi (Immigration & Emigration Department) og framvísuðu ákvörðun dómstólsins í Sri Lanka um ættleiðingu.
  • Dammas Hordijk leiðbeindi kjörforeldrum um þau gögn sem þau þyrftu að taka með til Íslands og einnig hvaða greiðslur þyrfti að inna af hendi til lögfræðingsins í Sri Lanka. Dammas Hordijk leiðbeindi einnig kjörforeldrum um að óska eftir leiðréttingum á gögnum í Sri Lanka ef það var ósamræmi t.d. varðandi nafn, fæðingardag o.fl. í gögnum þar sem erfitt væri að leiðrétta slíkt síðar.
  • Kjörforeldrar ferðuðust til Íslands með barnið.
  • Barnið fór í læknisskoðun hjá barnaspítalanum og haft var samband við Þjóðskrá varðandi skráningu barnsins.
  • Samkvæmt upplýsingum sem liggja fyrir tóku stjórnvöld í Sri Lanka það fram að misjafnt væri hvort ákvörðun dómstóls í Sri Lanka um ættleiðingu barns væri sjálfkrafa viðurkennd í móttökuríki eða hvort grípa þyrfti til sérstakra ráðstafana til þess að fá ákvörðun dómstóla í Sri Lanka viðurkennda í móttökuríki. Kjörforeldrar þyrftu því að gera ráð fyrir að hefja undirbúning á slíku ferli í tæka tíð.
  • Kjörforeldrar áttu að skila mánaðarlega til stjórnvaldsins í Sri Lanka eftirfylgniskýrslum þar til gengið hefði verið frá ættleiðingu í móttökuríki eða réttaráhrif ættleiðingarinnar hefðu verið viðurkennd. Dammas Hordijk hafði það hlutverk að koma eftirfylgniskýrslum frá kjörforeldrum til stjórnvalda í Sri Lanka.
  • Kjörforeldrar sóttu um ættleiðingu barnsins til dómsmálaráðuneytisins að tilteknum tíma liðnum eftir heimkomu (u.þ.b. 3 mánuðum). Áður en leyfi til ættleiðingar var veitt hér á landi óskaði dómsmálaráðuneytið eftir umsögn barnaverndarnefndar sem hitti fjölskylduna, skrifaði greinargerð og annað hvort mælti með því að viðkomandi par fengi að ættleiða umrætt barn eða ekki. Barnaverndarnefnd skoðaði hæfi kjörforeldra og einnig hvernig gengið hefði hjá fjölskyldunni eftir að þau komu með barnið til Íslands. Ráðuneytið óskaði m.a. eftir að barnaverndarnefnd fylgdist með fjölskyldunni og kannaði hvernig barnið hefði aðlagast og hvort samband kjörforeldra og barns hefði þróast á eðlilegan hátt með tilliti til ættleiðingar. Ráðuneytið óskaði eftir að umsögn barnaverndarnefndar yrði send ráðuneytinu í fyrsta lagi þremur mánuðum eftir heimkomu.
  • Ef barnaverndarnefnd mælti með ættleiðingu og ekki var ástæða til þess að efast um að samþykki lögbærs aðila fyrir ættleiðingunni hafi legið fyrir í Sri Lanka gaf ráðuneytið út ættleiðingarleyfi á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Með því var verið að viðurkenna réttaráhrif ættleiðingarinnar sem hafði þegar farið fram í Sri Lanka. Meðfylgjandi var einnig umsókn kjörforeldra um íslenskan ríkisborgararétt fyrir barn. Ef ráðuneytið taldi hins vegar vafa leika á því að lögbær aðili hefði veitt samþykki fyrir ættleiðingunni samkvæmt 7. og 10. gr. þágildandi ættleiðingarlaga nr. 15/1978 var heimilt samkvæmt 2. mgr. 12. gr. þeirra laga að veita leyfi til ættleiðingar þrátt fyrir að ekki hefði fengist samþykki lögbærs aðila, ef talið var að sérstaklega stæði á og þarfir barns mæltu eindregið með því, enda hefði barnaverndarráð fallist á þá skipan mála. Í slíkum tilvikum leitaði dómsmálaráðuneytið álits barnaverndarráðs áður en tekin var ákvörðun.
  • Ef í ljós hefði komið að kjörforeldrar væru ekki talin hæf að mati barnaverndarnefndar eftir komu þeirra til landsins með barnið og t.d. ef samband kjörforeldra og barns hefði að mati barnaverndarnefndar ekki þróast á eðlilegan hátt með tilliti til ættleiðingar hefði verið mögulegt að synja um leyfi til þess að ættleiða barnið. Gera má ráð fyrir því að í slíkum tilvikum hefði þurft að finna barninu fósturforeldra hér á landi sem hefðu þá eftir atvikum getað sótt um að ættleiða barnið. Óljóst er hvort heimild hafi verið til þess að senda barn í slíku tilviki aftur til Sri Lanka í ljósi þess að ættleiðing hafði þegar farið fram í Sri Lanka og barnið á ábyrgð íslenskra stjórnvalda eftir brottför þess þaðan.

 

Viðbrögð dómsmálaráðuneytisins árið 1986

Dómsmálaráðuneytið stöðvaði ættleiðingar frá Sri Lanka árið 1986 vegna ættleiðingarmáls sem var þá til meðferðar og laut að þeim gögnum sem voru fyrirliggjandi um ættleiðingu tiltekins barns og þeim svörum sem ráðuneytið fékk á þeim tíma vegna sérstakrar athugunar á umræddu máli. Ráðuneytið getur hins vegar ekki tjáð sig frekar um það einstaka mál með hliðsjón af rétti viðkomandi kjörforeldra og barns til persónuverndar og friðhelgi einkalífs.

 

Þau gögn sem liggja fyrir frá umræddum tíma benda ekki til annars en að stöðvun ættleiðinga frá Sri Lanka hafi að meginstefnu til verið byggð á þessu tiltekna máli og í kjölfarið þeim vafa sem ráðuneytið taldi vera á áreiðanleika þess lögfræðings sem starfaði fyrir hönd væntanlegra kjörforeldra í Sri Lanka. Ráðuneytið sá sig knúið til þess að athuga nánar þann aðila sem starfaði sem tengiliður Dammas Hordijk í Sri Lanka. Í kjölfar þess að ráðuneytið stöðvaði ættleiðingar frá Sri Lanka reyndi Íslensk ættleiðing, í samstarfi við Dammas Hordijk, að komast í samband við nýjan tengilið í Sri Lanka þannig að ættleiðingar þaðan gætu haldið áfram. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir vegna afstöðu dómsmálaráðuneytisins.

 

Viðbrögð dómsmálaráðuneytisins á umræddum tíma vegna málsins voru margþætt:

 

  • Til þess að athuga nánar þann lögfræðing sem starfaði í Sri Lanka sendi dómsmálaráðuneytið t.a.m. fyrirspurnir á yfirvöld á hinum Norðurlöndunum og fékk svör við þeim fyrirspurnum.
  • Dómsmálaráðuneytið sendi fyrirspurnir til Dammas Hordijk og til lögfræðingsins í Sri Lanka þar sem óskað var nánari skýringa á málinu frá 1986 og bárust ráðuneytinu skýringar vegna þess máls bæði frá Dammas Hordijk og lögfræðingnum frá Sri Lanka. Dómsmálaráðuneytið óskaði einnig eftir upplýsingum frá Dammas Hordijk um hvaða leyfi umræddur lögfræðingur í Sri Lanka hefði til þess að hafa milligöngu um ættleiðingar í Sri Lanka. Ráðuneytið fékk þau svör frá Dammas Hordijk að lögfræðingurinn þyrfti ekki sérstök leyfi frá yfirvöldum í Sri Lanka til þess að hafa milligöngu um ættleiðingar heldur væri nægjanlegt að hún hefði réttindi til þess að starfa sem lögfræðingur í Sri Lanka. Þá fékk ráðuneytið m.a. þau svör frá lögfræðingnum í Sri Lanka að dómstólar í Sri Lanka hefðu það hlutverk að ganga úr skugga um að réttir kynforeldrar kæmu fram fyrir dómstólum og að þeir væru yfirheyrðir af dómstólum í Sri Lanka við meðferð málsins.
  • Dómsmálaráðuneytið óskaði eftir aðstoð utanríkisráðuneytisins við að senda fyrirspurn til sendiráðs Sri Lanka í London um lögfræðinginn í Sri Lanka sem Dammas Hordijk var í samstarfi við. Dómsmálaráðuneytið fékk þau svör frá tveimur ráðuneytum í Sri Lanka að engar athugasemdir væru gerð við störf lögfræðingsins í Sri Lanka og var tekið fram að hún hefði staðið sig vel í sínum störfum við það að aðstoða fátækar mæður í Sri Lanka og hafa milligöngu um ættleiðingar á börnum frá Sri Lanka til erlendra umsækjenda.
  • Dómsmálaráðuneytið óskaði eftir milligöngu utanríkisráðuneytisins við að senda fyrirspurn til hollenskra stjórnvalda um Hollendinginn Dammas Hordijk, m.a. hvort hann hefði leyfi hollenskra stjórnvalda til þess að hafa milligöngu um ættleiðingar. Ráðuneytið fékk þau svör að hollenskum stjórnvöldum væri kunnugt um að ættleiðingarstofnunin FLASH sem Dammas Hordijk veitti forstöðu á tilteknum tíma hafi um tíma ekki staðið sig fyllilega sem skyldi en breyting hefði orðið þar á til batnaðar og væri komið á gott og náið samstarf milli FLASH og hollenskra stjórnvalda.
  • Íslensk ættleiðing benti ráðuneytinu á tvo lögfræðinga sem væru tilbúnir til þess að vera nýir tengiliðir í Sri Lanka. Dómsmálaráðuneytið sendi í kjölfarið bréf á dómstóla og stjórnvöld í Sri Lanka þar sem spurst var fyrir um tiltekinn lögfræðing sem Íslensk ættleiðing hafi bent á. Ekki verður séð að yfirvöld á Sri Lanka hafi svarað þessum fyrirspurnum.
  • Dómsmálaráðuneytið tilkynnti Íslenskri ættleiðingu að hafin væri vinna hér á landi við undirbúning reglna um löggildingu ættleiðingarfélaga.

 

Ættleiðingar frá Sri Lanka komust ekki á að nýju vegna afstöðu dómsmálaráðuneytisins á þeim tíma þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir Íslenskrar ættleiðingar þar að lútandi til íslenskra stjórnvalda.

 

Næstu skref

Eins og áður hefur komið fram í tilkynningu dómsmálaráðuneytisins sendi ráðuneytið árið 2017 erindi til stjórnvalda í Sri Lanka þar sem kom m.a. fram hversu mörg börn hefðu verið ættleidd frá Sri Lanka til Íslands og að óskað væri eftir nánari upplýsingum um þá rannsókn sem átti að fara fram í þar í landi. Þá var óskað eftir því að íslensk stjórnvöld yrðu upplýst um framvindu málsins og þær niðurstöður sem kæmu út úr þeirri rannsókn sem kynnu að varða uppruna þeirra sem ættleiddir hefðu verið. Tilraunir ráðuneytisins til þess að afla upplýsinga frá Sri Lanka báru hins vegar ekki árangur. Á þeim tíma kannaði ráðuneytið einnig viðbrögð annarra stjórnvalda á hinum Norðurlöndunum.

Ráðuneytið hefur nú á nýjan leik sent erindi til stjórnvalda í Sri Lanka, nánar tiltekið í byrjun desember. Þar kemur m.a. fram að nokkrir uppkomnir ættleiddir frá Sri Lanka hefðu sett sig í samband við ráðuneytið vegna gruns af þeirra hálfu að skjöl sem hafi legið til grundvallar ættleiðingu þeirra í Sri Lanka hafi verið fölsuð. Ósk um upplýsingar um fyrrnefnda rannsókn á Sri Lanka var einnig ítrekuð.

Þeim sem vilja hafa samband við ráðuneytið vegna ættleiðingarmála er bent á að senda tölvupóst á netfangið dmr@dmr.is