Grænlensk börn heimsækja Dalvíkurbyggð

Grænlensk skólabörn og kennarar heimsóttu Dalvíkurbyggð í vikunni, en þau komu frá vinabæ Dalvíkurbyggðar, Ittoqqortoormiit. Bærinn er sá nyrsti á austurströnd Grænlands. Börnin eru komin til Íslands til að læra sund en Grænlensk-íslenska vinafélagið bíður árlega börnum frá Grænlandi til Íslands til að læra sund og fer sú kennsla fram í Reykjavík að þessu sinni.

Einu sinni í viku er flogið frá Scoresbysundi til Akureyrar og nýttu þau því tækifærið og komu í heimsókn í Dalvíkurbyggð áður en þau héldu áfram suður í sundkennsluna. Á meðan þau dvöldu í Dalvíkurbyggð fóru þau í heimsókn á bóndabæi þar sem þau sáu kýr, kálfa, hesta, heimalinga og fleiri dýr sem þau eru ekki vön að sjá í sínum heimahögum. Börnin voru alsæl með heimsóknina og héldu glöð í bragði á vit frekari ævintýra í Reykjavík.

grænlensk