Blakfélag Fjallabyggðar hefur nú klárað 5 leiki á Íslandsmótinu í 3. deild kvenna sem haldið var á Húsavík um helgina. Við greindum frá úrslitum fyrstu þriggja leikjanna í gær.

BF lék einn leik í gærkvöldi og annan fyrir hádegið í dag. BF lék gegn Esju seint í gær og var leikurinn jafn og spennandi. BF vann fyrstu hrinuna með minnsta mun, 23-25 og Esja svaraði í annarri hrinu með sigri 25-18.  BF stelpurnar voru svo sterkari í oddahrinununni og unnu hana 12-15 og leikinn 1-2.

Í morgun lék svo  BF við Þrótt Reykjavík C.  BF vann leikinn með nokkrum yfirburðum, fyrsta hrinan fór 25-16 og síðari 25-14 og leikurinn 2-0.

BF vann því alla sína leiki á þessu helgarmóti á Húsavík og fara vel af stað á Íslandsmótinu.

BF tapaði aðeins tveimur hrinum og eru nú efstar með 13 stig eftir 5 leiki. Stelpurnar í Völsungi – C eru í 2. sæti með 12 stig.

Frábært mót fyrir BF. Næsta mót verður haldið í Reykjavík, þegar Þróttur býður heim, dagana 17.-19. janúar 2025.