Golfklúbbur Húsavíkur 50 ára

Golfklúbbur Húsavíkur fagnar um þessar mundir 50 ára afmæli sínu og hyggst ráðast í byggingu nýs golfskála norðan Þorvaldsstaðarár. Golfklúbburinn hefur óskað eftir viðræðum við Norðurþing vegna uppbyggingarsamnings til lengri tíma sem og hefðbundins rekstrarsamnings til skemmri tíma til að reka Katlavöll.

Katlavöllur á Húsavík er rótgróinn golfvöllur í fallegu landslagi. Teigar á mörgum brautum standa hátt og útsýnið er stórfenglegt á vellinum. Fjórða braut vallarins er án efa ein sú allra þekktasta á Íslandi. Stutt par 5 hola þar sem flötin liggur inn í lítilli laut.

Þorvaldsstaðaá rennur í gegnum völlinn og kemur við sögu á alls sex brautum vallarins. Gróður setur mikinn svip á Katlavöll og hafa félagsmenn lagt mikla vinnu í að gera völlinn enn fallegri og skemmtilegri. Um 150 félagsmenn eru í Golfklúbbi Húsavíkur.