Golfklúbbur Fjallabyggðar upp um deild
Íslandsmót golfklúbba 3. deildar karla var haldin á Skeggjabrekkuvelli í Fjallabyggð um helgina. Átta sveitir mættu til leiks á þessu sinni, Ísafjörður (GÍ), Fjallabyggð (GFB), Hveragerði (GHG), Grindarvík (GG), Vogar á Vatnsleysuströnd (GVS), Borgarnes (GB), Flúðir (GF) og Norðfjörður (GN).
Keppnin var æsispennandi, hörð barátta var allan tímann og oft stutt á milli gleði og vonbrigða.
Það voru heimamenn í Golfklúbbi Fjallabyggðar annars vegar og Golfklúbbur Grindavíkur hins vegar sem kepptu til úrslita. Heimamenn í GFB voru sterkari á lokasprettinum og unnu leikinn 2/1. Þeir keppa í 2. deild að ári eftir þessi úrslit.
Þriðja sætið féll í skaut Golfklúbbs Flúða en þeir unnu Golfklúbb Norðfjarðar. Golfklúbbur Borgarness vann Golfklúbb Ísafjarðar um fimmta sætið. Og Golfklúbbur Hveragerðis vann Golfklúbb Vatnsleysustrandar um sjöunda sætið. Golfklúbb Vatnsleysustrandar leikur því í 4. deild að ári.
Myndir með frétt koma frá Golfklúbbi Fjallabyggðar.