Góð aðsókn á málþing í Sundlaug Akureyrar

Blautasta málþing allra tíma, Á kafi í fullveldi, var haldið í Sundlaug Akureyrar síðasta laugardag, 20. október. Tilefnið var 100 ára afmæli fullveldisins Íslands. Prýðileg aðsókn var að viðburðinum sem stóð sleitulaust frá kl. 13-16 og var frítt í sund á meðan.

Tíu fræðimenn frá Háskólanum á Akureyri fluttu stutta framsögu um ýmsar hliðar fullveldisins í heitu pottunum á sundlaugarsvæðinu og fengu síðan sundlaugargesti til að tjá sig um málefnið. Skáldið Gerður Kristný flutti ljóð sín með kraftmiklum hætti og Vandræðaskáldin fluttu bálkinn Sullveldi. Um annan tónlistarflutning á svæðinu sáu Ivan Mendes og systurnar Una og Eik. Listakonan Jónborg Sigurðardóttir dreifði plastbrúsum með áríðandi skilaboðum í einn heita pottinn og fjallaði um plastógnina. Í karlaklefanum talaði Hjalti Ómar Ágústsson um ábyrgð pungsins og í kvennaklefanum ræddi Sigga Dögg um fullveldi píkunnar.

Háskólakennararnir sem lögðu sitt af mörkum voru Anna Soffía Víkingsdóttir, Finnur Friðriksson, Börkur Már Hersteinsson, Grétar Þór Eyþórsson, Arndís Bergsdóttir, Guðmundur Ævar Oddsson, Nanna Ýr Arnardóttir, Hjalti Ómar Ágústsson, Bigir Guðmundsson og Brynhildur Bjarnadóttir. Kynnir á viðburðinum var María Pálsdóttir.

Á kafi í fullveldi var hluti af dagskrá 100 ára fullveldisafmæli Íslands, styrkt af Fullveldissjóði og unnið í samstarfi við Akureyrarbæ, Sundlaug Akureyrar, Háskólann á Akureyri, Akureyrarstofu, Amtsbókasafnið á Akureyri og Aflið.

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson / Akureyrarstofa