Glæsilegt skipalíkan af Mánabergi ÓF-42

Þúsundþjalasmiðurinn Elvar Þór Antonsson á Dalvík lauk í vor byggingu á skipalíkaninu af Mánabergi ÓF 42. Skipið var í eigu Ramma hf. í Fjallabyggð og var selt í vor til Rússlands. Skipið var smíðað á Spáni árið 1972 og var keypt til Reykjavíkur og hét þá Bjarni Benediktsson, en síðan keypti Sæberg í Ólafsfirði togarann. Sæberg sameinaðist síðar Ramma hf. Rúmlega eitt ár tók að smíða skipalíkanið í frístundum, en um 300-500 tíma getur tekið að smíða svona líkan. Hann leggur áherslu á að ná öllum smáatriðum sem réttustum og smíðaði eftir teikningum á skipinu sjálfu.

Meðal annarra skipa sem hann hefur smíðað eru Loftur Baldvinsson og Stefán Rögnvaldsson frá Dalvík, Sigurbjörgin frá Ólafsfirði, Akureyrin frá Akureyri og Eyrún og Haförn frá Hrísey. Alls eru líkönin orðin tíu talsins, og enn á eftir að fjölga.

Heimild: europe.saeplast.com