Skemmtiferðaskipið Ocean Endeavour
Fyrir liggja upplýsingar um áhrif gistináttagjalds á komu skemmtiferðaskipa til Fjallabyggðar á næsta ári. Áhrifin eru mjög mikil á komu skemmtiferðaskipa í Fjallabyggðarhöfn en nú þegar er búið að afbóka 21 komu skipa sumarið 2026 og aðeins 12 komur eru því bókaðar á næsta ári. Í sumar eru bókaðar 33 komur skemmtiferðaskipa.

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur lýst yfir miklum áhyggjum af þróun mála í kjölfar aukinnar skattlagningar fyrri ríkisstjórnar á þennan lið ferðaþjónustu. Þrátt fyrir að skipakomur í Fjallabyggðarhafnir séu ekki afar margar þá hefur fyrirsjáanlegur samdráttur vegna þessarar skattlagningar gríðarlega mikil áhrif bæði á stöðu hafnarsjóðs Fjallabyggðar en ekki síður á þjónustuaðila sem hafa m.a. byggt upp sína starfsemi í tengslum við að þjónusta ferðamenn sem sækja Fjallabyggð heim með þessum skipum.

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur skorað á stjórnvöld að endurskoða lagasetningu sem heimilar þessa auknu skattlagningu og mun, samkvæmt skýrslu sem Hafnasamband Íslands óskaði eftir, draga verulega úr umsvifum skemmtiferðaskipa við Ísland líkt og afbókanir í stórum stíl staðfesta.