Gistihúsið Hvanneyri til sölu á Siglufirði

Gistihúsið Hvanneyri við Aðalgötu 10 á Siglufirði er nú auglýst til sölu. Lítill sem enginn rekstur hefur verið undanfarið í húsinu, en núverandi eigandi hefur staðið í miklum endurbótum á húsnæðinu síðasta árið. Lögheimili Eignamiðlun er nú með húsið á söluskrá ásamt húsinu við Vetrarbraut 4.  Óskað er eftir tilboði í eignina, en fasteignamat eignarinnar er rúmar 30 milljónir króna og brunabótamatið er tæplega 170 milljónir. Húsið verður selt með tólum og tækjum til að reka hótel og  veitingastað. Alls eru 24 herbergi á Hvanneyri.

Nýir eigendur tóku við árið 2016 en til stóð að hefja rekstur aftur í síðastliðið haust.

Húsið var byggt sem hótel árið 1935, á síldarárunum góðu þegar uppgangur var hvað mestur á Siglufirði. Frá þeim tíma hefur ýmis starfsemi verið þar til húsa, t.d. Sparisjóður Siglufjarðar og Tónskólinn á Siglufirði. Um tíma átti Þormóður Rammi húsið og var með rekstur sinn þar, en var síðan aftur tekið í gegn og gert að gistiheimili.  Gistiheimilið Hvanneyri opnaði árið 1995 eftir töluverðar endurbætur.

Gistihúsið er á fjórum hæðum og alls hefur verið hægt að taka á móti sextíu manns. Á Hvanneyri hefur verið boðið er upp á bæði svefnpokapláss og uppbúin rúm. Í húsinu er koníakstofa og morgunverðarsalur.