Gistihúsið Hvanneyri á Siglufirði lokað í sumar

Enginn rekstur hefur verið um nokkra hríð á hinu fornfræga Gistihúsi Hvanneyri við Aðalgötu 10 á Siglufirði. Nýir eigendur tóku við á síðasta ári en undanfarið hefur ekki verið rekstur í húsinu. Samkvæmt upplýsingum frá eigenda stendur til að hefja rekstur aftur í haust. Nokkur tilboð hafa komið í eignina sem hefur verið hafnað, þótt hún sé ekki formlega til sölu.  Heimasíðu Gistihússins hefur verið lokað, en hún var á slóðinni www.hvanneyri.com.

Húsið var byggt sem hótel árið 1935, á síldarárunum góðu þegar uppgangur var hvað mestur á Siglufirði. Frá þeim tíma hefur ýmis starfsemi verið þar til húsa, t.d. Sparisjóður Siglufjarðar og Tónskólinn á Siglufirði. Um tíma átti Þormóður Rammi húsið og var með rekstur sinn þar, en var síðan aftur tekið í gegn og gert að gistiheimili.

Gistihúsið er á fjórum hæðum og alls hefur verið hægt að taka á móti sextíu manns. Hjá fyrri eigenda var boðið er upp á bæði svefnpokapláss og uppbúin rúm. Í húsinu er koníakstofa og morgunverðarsalur.