Gestum fjölgaði á Sögusetri íslenska hestsins

Sumaropnun Söguseturs íslenska hestsins árið 2018 lauk 31. ágúst. Setrið er staðsett í Hólum í Hjaltadal.  Gestir voru alls 1177, þar af 153 börn. Þeir sem greiddu aðgangseyri voru þannig 1024, sem er nokkur fjölgun frá fyrra ári. Mjög athyglisvert er hversu víða að gestir setursins í sumar komu, eða frá 29 þjóðlöndum auk Íslands, að vísu einungis örfáir frá sumum þeirra. Rétt eins og fyrri ár eru þýskir gestir í sérflokki hvað fjölda varðar, en þeir voru 392, eða rétt rúm 38%. Íslendingar voru í öðru sæti með 138 gesti og Bandaríkjamenn í því þriðja með 69 gesti. Næstir komu svo Hollendingar (61 gestur), Svisslendingar (60 gestir) og Svíar (54 gestir).

Sögusetur íslenska hestsins stóð fyrir sýningunni Íslenski hesturinn á fullveldisöld á landsmóti hestamanna, sem fram fór á félagssvæði Hestamannfélagsins Fáks í Reykjavík, dagana 1. til 8. júlí. Sýningin var hluti af dagskrá 100 ára fullveldis Íslands 1918 – 2018 og var styrkt af afmælissjóði þess.

Heimild: sogusetur.is