Gefur út næringarfræðslubók fyrir börn

María Petra Björnsdóttir íbúi í Fjallabyggð hefur skrifað og gefið út nýja bók sem heitir Orkumatur. Bókin er í fræðslubók um næringu fyrir börn og er myndskreytt á skemmtilegan máta. Við heyrðum í Maríu Petru og spurðum út í þessa nýju bók.
“Ég hef lengi haft mikinn áhuga á góðri næringu, lagt áherslu á að kynna börnin mín fyrir henni og af hverju við reynum yfirleitt að velja góðan og hollan mat án þess að tala illa eða neikvætt um lakari næringu því viljum jú öll stundum fá okkur skyndibita, nammi, snakk, gos og njóta þess án þess að fá samviskubit yfir því. 

Í maí á þessu ári fékk ég þá hugmynd að setja saman í litla bók upplýsingar, á einföldu máli, um það af hverju við og börnin okkar ættum að velja góða næringu. Í framhaldi af því kom ég mér í samband við mjög góðan grafískan hönnuð sem teiknaði upp myndir fyrir mig eftir mínum hugmyndum og ég notaði börnin mín sem fyrirmynd af krökkunum í bókinni. Í bókinni er blandað saman á 22 blaðsíðum textum og myndum um hollan mat, næringu og mikilvægi góðs mataræðis. Það er enginn söguþráður í bókinni, hún er meira hugsuð sem jákvæð fræðsla um efnið. Myndirnar gefa henni svo líka mjög skemmtilegan og lifandi blæ. 
Bókin er fyrst og fremst hugsuð fyrir yngri kynslóðina, ég gef hana sjálf út og læt prenta 160 eintök til að byrja með. Get svo alltaf pantað meira ef ég þarf. Nútíma prenttækni gerir það mögulegt að panta eftir hendinni. Að vísu er þetta ekki ódýrasta leiðin en með þessu lendir maður ekki í því að sitja uppi með mikinn óseldan lager. Ég sel bókina bara sjálf og kynni hana á facebook. Tæknin gerir manni  mögulegt að hanna og setja bækur upp í tölvunni sinni og það er það sem ég gerði. Var svo í sambandi við grafíska hönnuðinn sem býr í Argentínu á netinu.”