Félag í eigu Þrastar Þórhallssonar, fasteignasala og stórmeistara í skák hefur nú fest kaup á gamla gagnfræðaskólanum að Hlíðarvegi 18-20 Siglufirði og hafa kaupsamningar verið undirritaðir.
Þröstur ætlar að breyta gamla skólahúsnæðinu í íbúðarhús með 14 íbúðum en breytingar á húsinu hafa þegar farið í grenndarkynningu.
Hönnunarvinna verkefnisins er nú í fullum gangi og reiknað er með að framkvæmdir hefjist seint í ágústmánuði.
Þröstur á ættir sínar að rekja til Siglufjarðar. Faðir hans Þórhallur Sveinsson byggingarmeistari er fæddur og uppalinn á Siglufirði.
Í þessu tilefni gaf Þröstur Grunnskóla Fjallabyggðar fimm töfl og kennslubækur í skák.
Þröstur reiknar með að vera tilbúinn að grípa í skákkennslu í grunnskólanum í vetur, sem yrði mikill fengur fyrir upprennandi skákmenn skólans.