Gamli Allinn á Siglufirði verður að vinnustofu og menningarsetri.

Margir hafa dansað af sér skóna í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Nú er verið að gera húsið upp, en það fær nýtt hlutverk með vorinu.

Alþýðuhúsið á Siglufirði var félagsheimili Siglfirðinga í áratugi en upp á síðkastið hefur það verið notað sem geymsla. Fljótlega mun húsið þó lifna við á nýjan leik því listakonan Aðalheiður Eysteinsdóttir hefur tekið húsið að sér og ætlar að breyta því í vinnustofu og menningarsetur þar sem boðið verður upp á mánaðarlega viðburði. „Ég ætla að reyna að koma sem fjölþættastri menningarstarfsemi í húsið, bjóða öðrum listamönnum að koma hingað og vera sér að kostnaðarlausu með því skilyrði að þeir leggi sitt vinnuframlag til bæjarins, með fyrirlestrum tónleikum eða sýningum eða slíkur eftir því hvað fólk er að gera.“

Aðalheiður, sem hefur starfað við myndlist í 18 ár, er fyrir löngu orðin þekkt fyrir skúlptúra sína úr afgangstimbri. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún heldur af stað í menningaruppbyggingu af þessu tagi því hún hefur tekið þátt í slíkum verkefnum bæði á Akureyri og á Hjalteyri. Á Siglufirði ætlar Aðalheiður ekki bara að leggja Alþýðuhúsið undir sig heldur einnig túnið sunnan við húsið en þar er meiningin að setja upp skúlptúrgarð með hennar eigin verkum. „Og þetta er yndislega gaman og að vinna svona starf er ofboðslega gefandi og skemmtilegt. þetta er eitthvað sem hefur raunverulegt gildi inn í samfélagið.“

Heimild: Rúv.is