Gamall hrepparígur Siglfirðinga og Ólafsfirðinga rannsakaður í lokaritgerð

Björn Jónas Þorláksson nemandi í Háskólanum á Akureyri vinnur nú lokaritgerð í Hug- og félagsvísindasviði. Ritgerðin heitir “Hrepparígur á Tröllaskaga” og verður birt hér þann1.1.2013. Leiðbeinandi er Þóroddur Bjarnason.

Um ritgerðina:

Viðtekin sannindi hafa þótt hér á landi að hrepparígur sé eyðandi afl sem standi framþróun fyrir þrifum. Í eigindlegri rannsókn sem gerð var meðal öldunga í Fjallabyggð sumarið 2010 birtist gamalkunnur hrepparígur milli Ólafsfirðinga og Siglfirðinga en samkvæmt rannsókninni líta aldraðir íbúar á Tröllaskaga ekki á ríginn sem neikvætt fyrirbæri.

Í þessari ritgerð verður varpað fram þeirri spurningu hvort hrepparígur hafi gegnt félagslegu hlutverki í samskiptum einangraðra íbúa á Tröllaskaga og líkum leitt að því að hrepparígur hafi átt þátt í að auka samstöðu íbúahópanna tveggja, Ólafsfirðinga og Siglfirðinga, og aðgreina þá frá öðrum á umbrots- og breytingatímum. Er stuðst við funksjónalíska átakakenningu bandaríska félagsfræðingsins Lewis Coser í þeirri greiningu.