Fyrsti sigur Blakfélags Fjallabyggðar í 1. deild karla

Blakfélag Fjallabyggðar heimsótti Stjörnumenn(3) í íþróttahúsið Álftanesi í gær. BF mætti með 12 leikmenn, en félagið hefur spilandi þjálfara, Raul Rocha og aðstoðarþjálfari er Anna María Björnsdóttir. Í skýrslu dómara kom fram að heimamenn hefðu ekki útvegað boltasæki en lið BF var það fjölmennt að þeir björguðu því. Stjörnumenn höfðu aðeins 8 leikmenn á skýrslu, þar af voru 4 erlendir leikmenn. Að auki kom fram í skýrslu dómara að línur hefði verið ógreinilegar og að ekki hefði verið hægt að strekkja netið nægjanlega vel.

En það voru gestirnir úr Fjallabyggð sem byrjuðu leikinn að krafti og voru ekki nema 15 mínútur að vinna fyrstu hrinu, 15-25. Næsta hrina var jöfn, en heimamenn lönduðu sigri, 25-23 og jöfnuðu leikinn í 1-1. Í þriðju hrinu unnu heimamenn nokkuð örugglega, 25-16. Fjórða hrina var jöfn og spennandi og unnu gestirnir úr Fjallabyggð 24-26. Í úrslitahrinunni var einnig jafnræði með liðunum, en gestirnir úr Fjallabyggð lönduðu sigri, 13-15, og 2-3 í hrinum. Fyrsti sigurinn í hús hjá Blakfélagi Fjallabyggðar í 1. deild karla.