Fyrsta stig sumarsins hjá Tindastóli

Tindastóll hefur farið hægt af stað í stigasöfnun á Íslandsmótinu í 2. deild karla í knattspyrnu og voru án stiga eftir sex leiki. Liðið lék í gær á heimavelli við Þrótt frá Vogum, en þeir eru með mjög vel skipað lið og reynda leikmenn úr efri deildum Íslandsmótsins.

Stólarnir byrjuðu af krafti og komust yfir strax á 13. mínútu með marki frá Sverri Friðrikssyni, hans fyrsta mark í sumar í 9 leikjum í deild og bikar. Gestirnir jöfnuðu leikinn á 38. mínútu með marki frá Andrew James Pew. Aðeins sex mínútum síðar komust Stólarnir aftur yfir þegar þeir fengu vítaspyrnu, og úr henni skoraði Konráð Freyr Sigurðsson, hans annað mark í deildinni í sumar. Staðan var því 2-1 í hálfleik fyrir heimamenn.

Strax í hálfleik gerðu Þróttarar skiptingu þegar Pape Mamadou Faye kom inná, en hann hefur gert fjögur mörk í sumar fyrir liðið. Bæði lið gerðu svo skiptingar um miðjan síðari hálfleik, og allt stefndi í góðan sigur Tindastóls. Á 86. mínútu jöfnuðu hins vegar Þróttarar leikinn með marki frá Ingvari Ingvarssyni. Aðeins mínútu síðar fékk Pape Mamadou Faye beint rautt spjald og léku gestirnir einu færri það sem eftir var leiks. Tindastóll náði ekki að nýta sér liðsmuninn og voru lokatölur í leiknum 2-2. Fyrsta stig Tindastóls komið í hús eftir sjö umferðir.

Tindastóll leikur næst við Selfoss á útivelli, fimmtudaginn 20. júní.