Fyrsta jafntefli KF í deildinni

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Kára á Akranesi í dag í 2. deild karla en leikurinn fór fram í Akraneshöllinni.

KF vann fyrri leik liðanna í sumar 3-2 en liðin voru á svipuðum stað í deildinni fyrir leikinn í dag og var búist við jöfnum leik.

Heimamenn héldu boltanum vel og sóttu í upphafi leiks á meðan KF beið til baka og reyndi að sækja hratt þegar færi var og uppskar nokkur þannig tækifæri í dag. Það voru hinsvegar heimamenn sem komust yfir á strax á 13. mínútu eftir frekar einfalda sókn upp kantinn sem endaði með fyrirgjöf og marki. Þarna hefðu varnarmenn KF átt að gera betur, loka fyrir sendinguna og dekka betur í teignum.

Kári skoraði aftur á 28. mínútu og var uppskriftin svipuð, farið var upp hægri kantinn, fyrirgjöf og mark, aftur illa dekkað í teignum og mátti sjá að leikmenn KF voru ekki sáttir með sinn leik í þessum tveimur mörkum. Útlitið alls ekki gott á þessum tímapunkti. Fyrir seinna markið hafði KF átt opið færi sem nýttist ekki þegar Emanuel komst einn innfyrir vörn Kára eftir snarpa sókn en markmaður Kára gerði vel að verja.

Strákarnir hans Miló í KF eru ekki þekktir fyrir að gefast upp og fóru að pressa meira eftir þessi tvö mörk og uppskáru fleiri tækifæri. Ljubomir Delic var orðinn fremsti maður í góðri skyndisókn KF á 41. mínútu, og slapp inn fyrir vörn Kára og kláraði færið vel og minnkaði muninn í 2-1.

KF strákarnir hresstust mikið við markið og héldu áfram að pressa, og uppskáru gott tækifæri eftir hápressu undir lok fyrri hálfleiks. Oumar Diouck fékk góða sendingu frá hægri kanti og sendi boltann inn í teiginn á Theodore Develan Wilson sem skoraði sitt 7 mark í 11 leikjum í deildinni í sumar og jafnaði leikinn 2-2. Frábær tímasetning og var staðan 2-2 í hálfleik.

KF hélt áfram að pressa síðari hálfleik og beitti skyndisóknum, en sendingar inn fyrir vörn Kára skiluðu ekki árangri.

Kári gerði þrefalda skiptingu á 72. mínútu og settu markahrókinn Garðar Gunnlaugsson inná ásamt tveimur öðrum, og átti nú að setja allt í sóknina og reyna sækja til sigurs. KF áttu hins vegar ágætis leik og héldu boltanum vel í síðari hálfleik og fengu nokkrar aukaspyrnur fyrir utan teig sem nýttust ekki.

Kári fékk ágætis tækifæri á 90. mínútu þegar þeir tóku hornspyrnu sem endaði með góðum skalla en Halldór markmaður KF varði vel.

Niðurstaðan var 2-2 og var þetta fyrsta jafnteflið í deildinni í sumar hjá KF sem eru komnir með 19 stig eftir 12 leiki.

Góð endurkoma hjá KF eftir að hafa lent tveimur mörkum undir og góð barátta allan leikinn.