Fyrsta jafntefli KF í deildarkeppni síðan 2016 – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Dalvík/Reyni í kvöld á Dalvík í 3. deild karla. Töluverð spenna var fyrir þessum leik, en leikir þessara liða hafa verið fjörugir síðustu árin og oft miklir markaleikir. KF var í neðri hluta deildarinnar fyrir þennan leik en Dalvík/Reynir í efsta sæti og þóttu sigurstranglegri fyrir leikinn. Í þessum leik var ekkert gefið eftir hjá þessum nágrannaliðum. Aksentije Milisic var aftur kominn í byrjunarlið KF en að öðru leiti var liðið nokkuð hefðbundið. Sveinn Margeir Hauksson var í byrjunarliði Dalvíkur en hann er aðeins 17 ára og hefur leikið 9 leiki í deildinni í sumar.

Að loknum fyrri hálfleik þá var staðan 0-0, en hvorugu liðinu hafði tekist að skora. Í upphafi síðari hálfleiks þá fá Dalvíkingar vítaspyrnu, en spyrnuna tók Snorri Eldjárn Hauksson, en honum tókst ekki að skora, og staðan áfram 0-0. Honum er svo skipt út af nokkrum mínútum eftir vítið. Á 61. mínútu kemur Halldór Logi inná fyrir Jakob Auðun hjá KF og svo gerði KF tvær skiptingar undir lok leiksins þar sem Sævar Þór og Hrannar Snær fengu nokkrar mínútur. Leiknum lauk svo með 0-0 jafntefli og er það fyrsta jafnteflið á Íslandsmótinu hjá KF síðan í leik gegn Völsungi í 2. deildinni árið 2016, þann 23. september.

Eftir þennan leik er KF komið með 10 stig eftir 9 leiki og er í 7. sæti. Dalvík er áfram á toppi deildarinnar. Nú er mótið hálfnað og uppskeran ekki eins og væntingar stóðu til í upphafi móts. Það er þó ekki langt í efri hlutann ef sigrar fara detta í hús hjá KF.