Fyrsta almenningshlaupið haldið í Grímsey

Nyrsta hlaup landsins og jafnframt fyrsta almenninghlaupið í Grímsey, verður haldið á morgun. Hlaupaleiðin liggur norður yfir heimskautsbaug.

Fjörutíu hafa skráð sig í Norðurheimsskautshlaup TVG Zimsen í Grímsey á morgun og fara tvær fullar flugvélar frá Akureyri út í eyna í fyrramálið.

„Menn ætla að hlaupa norður yfir heimskautsbauginn og það er dálítið merkilegt, það er ekki gert á hverjum degi, hefur aldrei verið gert áður og það er kannski þess vegna sem við létum verða af því,“ segir Óskar Þór Halldórsson, einn af skipuleggjendum hlaupsins. Þetta er nyrsta almenningshlaup sem hefur verið hlaupið á Íslandi og það er það sem gerir þetta skemmtilegt.“

Óskar segir hlauparana koma víða að af landinu. Flestir þeirra hafa ekki komið áður til Grímseyjar, en finnst hlaupið kærkomið tækifæri til þess að heimsækja þennan útvörð í norðri. „Við hlaupum bara hringinn í kringum eyna getum við sagt, þræðum eiginlega eyna eins og hún leggur sig og það er um það bil 12 kílómetra hringur og þeir sem vilja fara lengra fara tvo hringi, 24 kílómetra.”

Heimild: Rúv.is