Fyrrum eigendur Kaffi Klöru, Ida Semey og Bjarni Guðmundsson, eru hvergi nærri hætt þrátt fyrir að hafa selt kaffi- og gistihúsið í sumar í Ólafsfirði. Þau hafa fjárfest í stóru atvinnuhúsnæði að Námuvegi 8, þar sem Skiltagerð Norðurlands var áður til húsa. Húsnæðið er tæplega 600 fermetrar af stærð, og með rislofti og býður upp á ýmsa möguleika. Góðar dyr eru á húsnæðinu og stigi á milli hæða. Húsnæðið var auglýst í sölu í byrjun júní í sumar en var svo selt í byrjun nóvember. Það var Fasteignamiðlun sem fór með sölu hússins, en þar starfar fasteignasali í Fjallabyggð sem hefur verið að veita þjónustu til íbúa og fyrirtækja í söluhugleiðingum.

Húsnæðið varð fyrir brunatjóni í byrjun ársins og urðu miklar sótskemmdir sem búið er að hreinsa að mestu leyti með viðeigandi hætti og mála yfir í rýminu sem verst varð úti við brunann. Búið er að hreinsa út úr húsinu milliveggi, létta veggi, gólfefni og einangrun úr lofti og þaki.

Með eigninni fylgja tryggingarbætur að upphæð um 32,0 milljónir sem greiddar verða út til eiganda eftir framvindu endurbyggingar og endurbóta á húsinu. Það er því hægt að gera húsið upp að miklu leiti með þessum tryggingabótum og því mjög áhugaverð kaup og fjárfesting.

Þau hjón liggja nú undir feldi með hvaða starfsemi verður þarna og hafa spurt nærsamfélagið hvað gæti hentað þarna best, en hafa ákveðnar hugmyndir sjálf um hvað gæti komið þarna næst.

Það verður áhugavert að fylgjast með gangi mála hjá þeim hjónum á næstu misserum í þessu nýja verkefni.