Fyrirliði KF framlengir samning sinn

Milos Glogovac fyrirliði Knattspyrnufélags Fjallabyggðar hefur ákveðið að framlengja dvöl sína hjá félaginu og spila með KF í 1. deild á næsta ári. Skrifað verður undir eins árs samning á næstu dögum. Milos hefur verið einn af lykilmönnum liðsins undanfarin tvö ár og reynsla hans oft komið liðinu að góðum notum. Milos spilaði 19 leiki í 2. deildinni í sumar.

Þá höfðu nýverið fjórir leikmenn skrifað undir samning hjá KF.

Sigurjón Fannar Sigurðsson og Magnús Blöndal skrifuðu undir tveggja ára samning. Báðir þessir leikmenn voru í liðinu s.l. sumar.

Björn Hákon Sveinsson og Ottó Hólm Reynisson skrifuðu undir eins árs samning við félagið. Björn Hákon sem er Húsvíkingur hefur undanfarið spilað í Noregi en var þar áður á mála hjá Þór. Ottó kemur frá Þór, hann var á láni hjá Dalvík á síðasta keppnistímabili þar sem hann spilaði 17 leiki og skoraði tvö mörk.

Nokkrir leikmenn verða ekki klæddir KF treyjum á næsta keppnistímabili. Þórður Birgisson er á samning hjá ÍA, Agnar Þór Sveinsson hefur lagt skóna á hilluna og Sigurbjörn Hafþórsson er fluttur á höfuðborgarsvæðið og mun ekki spila með KF á næsta ári.

Heimild: Kfbolti.is