Fimmtudaginn 24. janúar kl. 10:30 stendur Félag ferðaþjónustunnar í Skagafirði fyrir áhugaverðum fyrirlestri og vinnufundi um markaðssetningu áfangastaða og hlutverk sjálfsímyndar staða. Fundurinn verður haldinn á Hótel Varmahlíð og fyrirlesari er Elísabet Ögn Jóhannsdóttir frá Rannsóknarmiðstöð ferðamála. Boðið verður upp á súpu og brauð í hádeginu á 2.200 kr.
Markaðssetning skiptir miklu máli fyrir áfangastaði og hefur skilvirk mörkun áfangastaða og markaðssetning lengi verið talin eiga þátt í að efla samkeppnishæfni áfangastaða. Sjálfsímynd staða er sömuleiðis mjög mikilvæg í þessu ferli.
Fyrirlesturinn mun fjalla um leiðir til þess að kryfja sjálfsímynd áfangastaða sem að svo leggur grunninn að mörkun- og ímynd áfangastaða. Í lokin mun Elísabet svo kynna niðurstöður úr meistaraverkefni sínu þar sem hún og danskur samnemandi hennar rannsökuðu þátttöku og viðhorf ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi á mörkun Norðurlands sem áfangastað.
Félagsmenn og aðrir áhugasamir eru hvattir til þess að taka þátt í þessum viðburði og vinna að sameiginlegum hagsmunum sem liggja í markaðssetningu Skagafjarðar.
Æskilegt er að fólk skrái þátttöku, annaðhvort undir viðburðinum á facebook eða í tölvupósti lythorse@gmail.com.