Fuglastígskort útgefið fyrir Norðurland vestra

Út er komið fuglastígskort fyrir Norðurland vestra. Á kortinu eru merktir sautján staðir sem þykja áhugaverðir fyrir fuglaskoðunaráhugamenn allt frá Borðeyri í vestri að Þórðarhöfða í austri. Verkefnið er unnið af Ferðamálasamtökum Norðurlands vestra í samvinnu við Selasetur Íslands, Ferðamálafélag V-Hún, Ferðamálafélag A-Hún, Félag ferðaþjónustunnar í Skagafirði og Ferðamáladeild Háskólans á Hólum.

Fuglaskoðun er vinsælt áhugamál um heim allan og eru vinsældir hennar ört vaxandi. Fuglaskoðarar, sem og annað ferðafólk sem hefur áhuga á náttúruskoðun, sækjast eftir að skoða áhugaverða staði þar sem náttúran er óspillt og fuglarnir lifa í sínu náttúrulega umhverfi. Þetta er almennt séð hópur sem kaupir nokkuð mikla þjónustu og staldrar við í lengri tíma á hverjum stað en hinn hefðbundni ferðamaður.

Kortinu verður dreift til ferðaþjónustuaðila á svæðinu án endurgjalds en mælst til þess að þeir selji kortið á vægu verði (200 kr.). Þannig má stemma stigu við því að mikið magn kortanna lendi í ruslinu en afar kostanðarsamt er að vinna verkefni af þessum toga. Kortinu verður einnig dreift á einni af stærstu fuglasýningum heims í Bretlandi næsta haust.

Alla greinina má lesa á vef Selaseturs

FuglastígskortHeimild og mynd: selasetur.is