Frítt að læra á tré- og málblásturshljóðfæri í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga

Boðið verður upp á gjaldfrjálst nám í tré- og málmblæstri í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga skólaárið 2017 – 2018. Kennt er hálftíma á viku í einkakennslu. Síðan þegar nemendur hafa náð smá styrk og tækni á hljóðfærið bætist við klukkutími samæfing og svo tónfræði. Aðra gjaldskrá má finna á vef Tónlistarskólans.
Innritun í Tónlistarskólann á Tröllaskaga fer fram dagana 14. ágúst til 31. ágúst 2017.

Á síðasta skólaári í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga voru nemendur í hljóðfæranámi alls 206. Kennsla fer fram í húsnæði Tónlistarskólans við Skíðabraut á Dalvík og í Árskógarskóla, Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði og svo húsnæði skólans á Siglufirði.

Í skólanum starfa 15 tónlistarkennarar ýmist í hluta- og fullu starfi. Í skólanum er kennt á píanó, fiðlu, gítar, blokk­flautu, þverflautu, trompet, klarínett, saxófón, rafmagnsgítar, bassagítar, trommur og einnig er kenndur söngur. Forskólinn er fyrir nemendur 1.-4. bekkjar í grunnskólanum. Þar er lögð áhersla á söng, hrynþjálfun og grundvallarþekkingu á nótum. Samvinna milli Tónlistarskólans og Grunnskóla á Tröllaskaga er í góðum farvegi og í stöðugri þróun.