Fríhöfn og veitingastaður í nýrri viðbyggingu flugstöðvarinnar

Fyrsta skóflustungan að 1.100 fermetra viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli var tekin í síðustu viku. Þar með er markað upphafið að framkvæmdum við bygginguna en verktakar hefjast nú handa við að undirbúa byggingarreitinn. Það var Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem tók skóflustunguna.

Hönnun byggingarinnar var boðin út í fyrrasumar og urðu Mannvit og Arkís hlutskörpust og hafa síðan þá unnið að hönnun og útfærslu. Áætlað er að byggingaframkvæmdir hefjist í haust þegar byggingarreiturinn er tilbúinn og útboðsferli er lokið, en útboðsgögn verða auglýst 28. júní nk.

Í viðbyggingunni verða fríhöfn, veitingastaður og aðstaða fyrir toll og lögreglu. Verklok eru áætluð í lok árs 2022. Þá verður ráðist í endurbætur á eldri hluta hússins. Heildarstærð flugstöðvarinnar verður þá 2.700 fermetrar.