Fréttir af Foreldrafélagi Leikskála á Siglufirði

Aðsend frétt frá Foreldrafélagi Leikskólans Leikskála á Siglufirði.

————————————-

Aðalfundur Foreldrafélags Leikskála var haldinn miðvikudaginn 7. júní síðastliðinn.  Á fundinum var farið yfir störf og fjáraflanir félagsins á árinu, en megin markmið félagsins er að styðja við starf leikskólans sem og að gleðja börnin með skipulögðum vettvangsferðum, gjöfum, leiksýningum eða öðru slíku. Helstu tekjulindir Foreldrafélagsins eru árlegur kökubasar, bingó og myndlistarsýning í Ráðhúsi þar sem listaverk barnanna eru seld.

Á núlíðandi leikskólaári hefur Foreldrafélagið stutt rausnarlega við leikskólann, en til að mynda var keyptur svokallaður flettisófi þegar viðbygging leikskólans var tekin í notkun í nóvember síðastliðinn. Þar að auki hefur Foreldrafélagið fært leikskólanum þráðlausa hátalara á allar deildar, nýjar litríkar gólfmottur með stafrófi, tölustöfum og dýrum á hverja deild. Burstakubba, sérsaumaða íþróttadýnu sem nýtist við klifur og aðrar æfingar barnanna. Leikfangahirslur og dúkkur á Nautaskál auk þess sem Foreldrafélagið færði Leikskólanum hitamæli og sólarvörn fyrir börnin í upphafi sumars. Foreldrafélagið stóð fyrir sveitaferð á Sauðanes, leiksýningunni Maxímús Músíkús á sumarhátíð leikskólans og brúðuleiksýningunni Íslenski fíllinn á vordögum. Þar að auki létti Foreldrafélagið undir með bæði jólasveininum og páskahéranum, til þess að tryggja að öll börn á leikskólanum fengju veglega gjöf frá jólasveininum og páskaegg í tilefni páskanna.

Foreldrafélag Leikskála þakkar fyrirtækjum á staðnum, foreldrum, ömmum, öfum og öllum þeim sem styðja við fjáraflanir félagsins kærlega fyrir – stuðningur ykkar er grundvöllur þess að við getum stutt rausnarlega við leikskólann og glatt börnin okkar.