Fréttatilkynning um framboð Edward H. Huijbens

Fréttatilkynning um framboð Edward H. Huijbens til varaformanns VG á komandi landsfundi hreyfingarinnar 6.-8. október 2017.

Á flokksráðsfundi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, sem haldin var að Logalandi í Borgarfirði í lok ágúst, lýsti ég áhuga á því að taka við embætti varaformanns til næstu tveggja ára. Hlutverk varaformanns er að taka þátt í daglegri stjórnmála umræðu og hafa áhrif á hvert samfélag okkar er að þróast. Ég vil vinna að samfélagi sem hefur að leiðarljósi jöfnuð, mannvirðingu og umhverfisvernd. Samfélag þar sem þau gildi sem við höfum fyrir nýjum kynslóðum snúast ekki um sjálfbirgingshátt, græðgi og efnishyggju heldur gæsku, virðingu og umhyggju fyrir gjöfum náttúru og fólksins sem myndar umgjörð lífs okkar. Áherslur mínar og kraftar munu jafnframt beinast að innra starfi hreyfingarinnar í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, en það er mitt kappsmál að VG bjóði fram undir eigin merkjum sem víðast. Þar mun reynsla mín í bæjarmálum hjá Akureyrarkaupstað frá 2010 nýtast vel. Þar hef ég verið varabæjarfulltrúi í nær átta ár, setið í stjórn Norðurorku sem er fjórða stærsta veitufyrirtæki landsins og átt sæti í skipulagsráði, sem er ein viðamesta nefnd bæjarkerfisins.

Einkunnarorð mín eru virðing, kurteisi og sanngirni sem ég heiti að hafa í heiðri þegar ég vinn að umgjörð þeirra gilda sem ég lýsti að ofan.

 Eilítið um mig

Ég er 41 árs fæddur og uppalin Akureyringur af hollenskum og íslenskum ættum. Ég er giftur Ástu Kristínu frá Vestmannaeyjum og saman eigum við tvö börn (11 og 12 ára) auk 25 ára drengs sem nú býr í Noregi. Ég hef helgað líf mitt fræðastörfum og er með doktorspróf í landfræði og heimspeki frá Durham háskóla í Englandi. Ég starfa við rannsóknir á ferðamálum, þá helst gestum okkar og skynjun þeirra og upplifun af náttúru landsins. Ég veitti Rannsóknamiðstöð ferðamála forstöðu í 10 ár og byggði hana upp í núverandi mynd, en er nú prófessor við Háskólann á Akureyri.