Ástralskur ferðamaður um fertugt lést stuttu eftir að hann leitaði á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík vegna skyndilegra og alvarlegra veikinda. Bæði hann og eiginkona hans reyndust jákvæð fyrir veirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Sjúkdómseinkenni mannsins voru þó ekki dæmigerð fyrir COVID-19 og er unnið að því að skera úr um hvað orsakaði veikindi mannsins, hvort það var COVID-19 eða annað ótengt.

Mikil og margþætt vinna tekur nú við. Styðja þarf við eiginkonu hins látna og staðfesta þarf dánarorsök. Þá þarf að styðja við og setja þá heilbrigðisstarfsmenn sem komu að meðferð mannsins í sóttkví, sótthreinsa heilsugæsustöðina ásamt því að tryggja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu fyrir Húsvíkinga og nærsveitamenn. Öll þessi verkefni eru unnin á vegum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í samvinnu við sóttvarnalækni, landlækni, Rauða krossinn og er unnið í samstarfi við aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi eystra og Heilbrigðisstofnun Norðurlands.

Starfsemi Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Húsavík verður í lágmarki, en eins og áður sagði er allt kapp lagt á að tryggja að hægt verði að halda uppi mikilvægri þjónustu við íbúa á starfssvæði hennar og aðra sem kunna að þurfa á þjónustu hennar að halda. Tilkynningar er að vænta um hvernig þjónustu verður hagað.

Að gefnu tilefni vill Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík ítreka að þeir einstaklingar sem rætt er um hér að ofan og reyndust vera smitaðir af COVID-19 voru ekki í neinum tengslum við innliggjandi einstaklinga á stofnuninni. Einnig var þessum einstaklingum haldið aðskildum frá skjólstæðingum sem komu á heilsugæslu eða höfðu önnur erindi á stofnunina þannig að enginn sem kom á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík í gær ætti að þurfa að óttast smit vegna þessa atburðar.