Framkvæmt verður fyrir 315,7 milljónir í Fjallabyggð

Framkvæmt verður fyrir 315,7 milljónir í fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir árið 2018. Við gerð fjárhagsáætlunar Fjallabyggðar fyrir árið 2018 er lögð áhersla á styrkingu innviða og bætta þjónustu.

Helstu framkvæmdir verða:

a) Skólalóðir leikskóla og grunnskóla 70 milljónir króna.
b) Yfirlagnir malbiks og götur 50.5 milljónir króna.
c) Holræsa- og vatnsveitukerfi 104.5 milljónir króna.
d) Göngustígar og gangstéttir 15 milljónir króna.
e) Framkvæmdir á stofnunum eignasjóðs 20milljónir króna.

Aðrar framkvæmdir og innkaup:

Þá er gert ráð fyrir fjármagni til smærri umhverfisverkefna til fegrunar bæjarkjarnanna. Vinnuskóli Fjallabyggðar verður efldur sem og starfsemi þjónustumiðstöðvar.
Af mörgu er að taka í áætluninni en m.a. er brugðist við þörfum grunnskólans vegna breytts kennslufyrirkomulags og fest eru kaup á búnaði til íþróttakennslu og nýjum tölvubúnaði. Nýr fundarbúnaður verður settur upp í báðum sölum Tjarnarborgar og ný saunahús verða sett upp í sundlaugum Fjallabyggðar. Áfram verður unnið að innleiðingu verkefnisins Heilsueflandi samfélag og hækkar frístundastyrkur til barna úr 20.000 kr. í 30.000 kr. árið 2018. Félagsstarf og dagvist aldraðra hefur verið eflt í Ólafsfirði og mun starfsemin í auknum mæli fara fram í Húsi eldri borgara.
Fest verða kaup á nýjum mannskapsbíl fyrir Slökkvilið Fjallabyggðar á Siglufirði, framlög aukin til búnaðarkaupa og húsnæði slökkviliðsins í Ólafsfirði klætt að utan.

Helstu viðhaldsverkefni á fasteignum Fjallabyggðar eru endurnýjun á innanhússklæðningu í íþróttahúsi á Siglufirði, utanhússviðgerðir á Ráðhúsi Fjallabyggðar, viðhald á húsnæði Menntaskólans á Tröllaskaga auk viðhaldsverkefna innanhúss á félagslegu leiguhúsnæði í Ólafsfirði.

Almennt hækka gjaldskrár um 2% á milli ára en verð á skólamáltíðum í Grunnskóla Fjallabyggðar verður ekki hækkað á árinu 2018.