Fjallabyggð auglýsti í vor eftir tilboðum í ýmis verk í Ólafsfirði, eins og yfirfall á tjörn, þrýstilögn á hafnarsvæði og umhverfisfrágang við tjaldsvæðið í Ólafsfirði en tilboð voru opnuð í Ráðhúsi Fjallabyggðar 22. maí síðastliðinn. Eitt tilboð barst frá Smára ehf. sem hljóðaði upp á 33.897.970 en kostnaðaráætlun var 31.261.000. Ákveðið var að semja við Smára ehf. sem hefur nú hafið framkvæmdir á tjaldsvæðinu í Ólafsfirði.
Verið er að hækka svæðið þar til að koma í veg fyrir að það fari á flot í miklum rigningum. Framkvæmdir hefjast á nyrsta hluta svæðisins með því að setja malarefni, mold og torf. Runnar og skjólbelti verða endurhönnuð á þessu ári á tjaldsvæðinu.
Áætluð verklok á þessum hluta svæðisins er 15. júlí 2015 og er gert ráð fyrir að hægt verði að hleypa inn á svæðið í byrjun ágúst. Þrátt fyrir þessar framkvæmdir verður hægt að nýta syðri hluta svæðisins fyrir gesti og ferðamenn sem vilja gista á tjaldsvæðinu í Ólafsfirði.