Framkvæmdir við endurbætur á Sundlaug Sauðárkróks hefjast

Framkvæmdir við endurbætur á Sundlaug Sauðárkróks eru að hefjast. Í verkinu felst endurgerð á núverandi laugarhúsi, jafnt að utan sem innan, og breytingar á skipulagi innanhúss. Við framkvæmd sem þessa er óhjákvæmilegt að starfsemi sundlaugarinnar raskist verulega og mun þurfa að loka sundlauginni á hluta verktímans en reynt verður að halda lokunum í lágmarki. Í dag er fyrirséð að fyrsta lokun mun verða mánudaginn 8. janúar og mun standa yfir í tvær vikur.  Aðalverktaki verksins er K-Tak ehf. og hljóðar verksamningur upp á 332 milljónir króna. Verklok á endurbótum innanhúss eru 15. maí 2019 og skal verkinu að fullu lokið 15. ágúst 2019.

Nánar um framkvæmdir

Á 1. hæð verður anddyri, snyrting fyrir hreyfihamlaða, gangrými, lyfta og aðstaða starfsmanna. Vesturhluti núverandi kvennaklefa á jarðhæð verður óráðstafaður, og gufubað í suðurenda jarðhæðar verður óbreytt að mestu. Á 2. hæð verður útbúinn kvennaklefi og blautgufa í austurhluta hússins þar sem nú eru geymslur, vaktrými og þrekaðstaða, en karlaklefi í vesturhlutanum. Fyrir miðju verður afgreiðsla og vaktrými, ásamt sérstökum klefa fyrir hreyfihamlaða.

Breytingar á ytra byrði hússins felast m.a. í breyttri glugga- og hurðasetningu, niðurrifi á núverandi anddyrisbyggingu við NA-horn, niðurrifi á neðsta þrepi í áhorfendastæðum og steypu á veggskífu við aðalinngang. Húsið verður einangrað, klætt með múrklæðningu og málað.
Framkvæmdunum verður í grófum dráttum skipt í tvo verkáfanga;

Í fyrri áfanga verður tekinn fyrir austurhluti sundlaugarhúss, 1. og 2. hæð. Í upphafi verkáfangans verður útbúinn nýr bráðabirgðainngangur á norðurhlið og afgreiðsla verður færð til. Einnig verður vaktrými á 2. hæð flutt út á sundlaugarsvæðið. Á meðan unnið er að þessum áfanga verða innstu hlutar núverandi kvenna- og karlaklefar notaðir. Gufubað verður lokað á meðan unnið er að þessum verkáfanga.

Í öðrum verkáfanga verður tekinn fyrir vesturhluti hússins, þ.e. núverandi kvenna- og karlaklefar. Nýr kvennaklefi verður þá tilbúinn til notkunar á efri hæð og karlaklefi verður staðsettur við núverandi gufubað á 1. hæð.

Framkvæmdin er 1. áfangi í endurbótum á Sundlaug Sauðárkróks þar sem í 2. áfanga er gert ráð fyrir viðbyggingu setlauga og rennibrauta.